Íbúar Georgíuríkis í Bandaríkjunum kjósa nú öðru sinni um öldungadeildarþingmenn ríkisins. Takist frambjóðendum demókrata að hafa betur í kosningunum verða demókratar í meirihluta í öldungadeildinni.
Kosið er um tvö þingsæti og þurfa demókratar að vinna þau bæði til að ná meirihluta. Repúblikanar þurfa einungis að vinna annað sætið til að halda meirihluta sínum.
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, sagði fyrr í vikunni að kjósendur Georgíu hefðu í hendi sér vald til þess að móta Bandaríki komandi ára. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði aftur á móti að kosningarnar væru „síðasti möguleikinn til að bjarga Bandaríkjunum“.
Repúblikanarnir Kelly Loeffler og David Perdue sækjast eftir endurkjöri í kosningunum. Presturinn Raphael Warnock sækist eftir sæti Loeffler og blaðamaðurinn Jon Ossoff eftir sæti Perdues. Enginn frambjóðendanna náði tilskildum 50% atkvæða til að vinna kosningarnar sem fram fóru í nóvember þegar Joe Biden fékk meirihluta atkvæða í ríkinu.
Repúblikanar sitja nú í 52 af 100 sætum í öldungadeildinni. Fari svo að demókratar vinni bæði sæti Georgíu í kosningunum hefur verðandi varaforseti Bandaríkjanna, Kamala Harris, úrslitaatkvæði í öldungadeildinni.
Kjörstaðir voru opnaðir klukkan sjö í morgun að staðartíma, klukkan 12 að íslenskum tíma, og þeim er lokað klukkan 19 að staðartíma eða á miðnætti að íslenskum tíma. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstöður kosninganna koma í ljós.