Frönsk stjórnvöld hafa heitið því að leggja allt kapp á að bólusetja sem flesta á næstunni en þau hafa verið gagnrýnd fyrir hægagang í þeim efnum. Aftenposten ber í dag saman bólusetningar á milli landa og þar kemur fram að Noregur sé í þeim efnum eftirbátur ríkja á borð við Danmörku og Ísland.
Heilbrigðisráðherra Frakklands, Olivier Véran, segir að yfir tvö þúsund einstaklingar hafi verið bólusettir í gær og að á næstu dögum muni Frakkar ná nágrannaríkjunum varðandi bólusetningar.
Líkt og greint hefur verið frá höfðu aðeins rúmlega 500 Frakkar verið bólusettir á nýársdag samanborið við 200 þúsund Þjóðverja. Jean Rottner, forseti héraðsþings Grand Est-héraðs, sagði að hin hæga dreifing bóluefnis væri hneykslismál, en héraðið hefur glímt við mikla fjölgun nýsmita síðustu daga.
„Frakkar þurfa skýr og örugg skilaboð frá ríkisstjórn sem veit hvert hún stefnir. Ríkisstjórnin gefur ekki þá mynd sem stendur,“ sagði Rottner, en heimildir AFP-fréttastofunnar hermdu að Emmanuel Macron Frakklandsforseti væri verulega ósáttur við hversu illa hefði gengið að dreifa bóluefninu.
Jordan Bardella, varaformaður þjóðernisflokksins Þjóðfylkingarinnar, sagði Frakka hafa orðið að aðhlátursefni heimsbyggðarinnar. „Við bólusettum á einni viku jafnmarga og Þjóðverjarnir gerðu á hálftíma. Þetta er skammarlegt.“
Véran segir í samtali við RTL-útvarpsstöðina í morgun að á fimmtudag verði verulega hert á bólusetningum og fljótlega eftir það verði Frakkar komnir svipað á veg með bólusetningar og nágrannar þeirra. Fyrir lok janúar verði búið að bólusetja alla þá sem eru 75 ára og eldri sem ekki búa á heimilum fyrir aldraða, alls fimm milljónir manna. Jafnframt verður gerð gangskör í að bólusetja fleiri, þar á meðal slökkviliðsmenn og þá sem starfa við heimilishjálp og eru komnir yfir fimmtugt.
Frakkar fá, samkvæmt núgildandi samkomulagi, 500 þúsund skammta af bóluefni Pfizer-BioNTech í hverri viku að sögn Véran. Um leið og Lyfjastofnun Evrópu og framkvæmdastjórn ESB í kjölfarið veitir Moderna markaðsleyfi fá Frakkar hálfa milljón skammta af því bóluefni í hverri viku.
Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) hélt aukafund í gær þar sem til stóð að ljúka mati á bóluefni Moderna. Það tókst ekki og hefur nýr fundur verið boðaður á morgun þar sem væntanlega verður tekin ákvörðun um hvort veitt verði markaðsleyfi fyrir bóluefni númer tvö hjá stofnuninni við Covid-19.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun að því loknu flýta allri sinni vinnu með það fyrir augum að gefa út markaðsleyfi eins fljótt og auðið er. Tekur það markaðsleyfi gildi í Evrópusambandinu við útgáfu. Hérlendis mun Lyfjastofnun í kjölfarið gefa út íslenskt markaðsleyfi sem byggir á markaðsleyfi framkvæmdastjórnar ESB.
Rétt rúmlega 40% Frakka segist vilja láta bólusetja sig samanborið við 77% Breta samkvæmt könnun sem Ipsos Global Advisor gerði í síðustu viku.
Að sögn Véran í morgun hafa um 10 smit verið staðfest í Frakklandi af nýja afbrigði kórónuveirunnar og að vel sé fylgst með uppgangi þess. Í gær voru staðfest rúmlega 4 þúsund ný smit í Frakklandi en alls hafa 2,66 milljónir Frakka fengið Covid-19 samkvæmt opinberum tölum. Af þeim eru rúmlega 65 þúsund látnir.
Þrátt fyrir að markaðsleyfi hafi verið gefið út í Evrópu fyrir Pfizer-BioNTech bóluefnið 27. desember hefur bólusetning gengið hægar fyrir sig víða í ríkjum ESB en til að mynda í Ísrael.
Í ítarlegri umfjöllun Aftenposten í dag kemur fram að fyrsta manneskjan hafi verið bólusett í Noregi 27. desember og að fyrir áramót hafi 35 þúsund skammtar verið komnir til landsins. Viku síðar er búið að bólusetja 2.113 einstaklinga þar í landi samkvæmt upplýsingum frá Lýðheilsustofnun Noregs (FHI).
Aftenposten segir að á sama tíma sé búið að bólusetja 4.875 á Íslandi og yfir 40 þúsund í Danmörku. Færri hafi verið bólusettir í Finnlandi en Noregi og að Svíar hafi ekki veitt opinberar upplýsingar um fjölda þeirra sem hafi verið bólusettir. Fram kemur að Ísraelar standi öðrum þjóðum fremur er kemur að bólusetningum. Greininni er talað um rúmlega 12% en á vef Aftenposten er sú tala komin í 14%.