Afar mjótt er á munum þegar 98% atkvæða hafa verið talin í aukakosningum til öldungadeildar Bandaríkjaþings sem fram fóru í Georgíu-ríki í gær. Frambjóðandi demókrata, Raphael Warnock, hefur lýst yfir sigri í baráttunni um annað sætið og demókratinn Jon Osoff hefur afar naumt forskot á repúblikann David Perdue í baráttunni um hitt sætið.
Sjónvarpsstöðvar vestanhafs og AP-fréttastofan hafa staðfest sigur hins 51 árs Warnock. Fari svo að demókratar vinni bæði öldungadeildarþingsætin tryggja þeir sér meirihluta í öldungadeildinni.
Þá myndi verðandi varaforseti Bandaríkjanna, Kamala Harris, hafa úrslitaatkvæði í öldungadeildinni.
Repúblikanarnir Kelly Loeffler og David Perdue sækjast eftir endurkjöri í kosningunum. Eins og áður segir sóttist Raphael Warnock eftir sæti Loeffler og blaðamaðurinn Jon Ossoff eftir sæti Perdues. Enginn frambjóðendanna náði tilskildum 50% atkvæða til að vinna kosningarnar sem fram fóru í nóvember þegar Joe Biden fékk meirihluta atkvæða í ríkinu.
Gabriel Sterling, yfirmaður kjörstjórnar í Georgíu, sagði í samtali við CNN að búast mætti við endanlegri niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á hádegi vestanhafs, um klukkan 17:00 síðdegis í dag að íslenskum tíma.
Enn á eftir að telja nokkur þúsund atkvæði en samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs er þar mestmegnis um að ræða úthverfi Atlanta, þar sem demókratar njóta meiri hylli.
Niðurstaðan er sögð mikil vonbrigði fyrir Donald Trump. Hann hefur ítrekað varpað fram kenningum um svindl á meðan kosningar stóðu yfir. Yfirmenn kosninga sögðu ekkert slíkt eiga við rök að styðjast.