Frambjóðandi demókrata, Raphael Warnock, hefur lýst sigri í baráttunni um annað af tveimur sætum Georgíu-ríkis í öldungadeild Bandaríkjaþings. Aftur á móti hefur keppinautur hans, repúblikaninn Kelly Loeffler, ekki játað sig sigraðan.
Hvorki embættismenn í Bandaríkjunum né heldur helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna hafa lýst því yfir hver hafi haft betur í baráttunni um þingsætin tvö.
Bætt við klukkan 7:20 - nú hafa helstu sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna CBS, NBC og CNN sem og flestir fjölmiðlar í Bandaríkjunum greint frá þessu og segja að þetta sé hneisa fyrir Donald Trump sem lætur af embætti forseta Bandaríkjanna eftir tvær vikur eftir að hafa tapað forsetakosningunum í nóvember.
Warnock, sem er 51 árs prestur, hefur aftur á móti þakkað kjósendum fyrir þá trú sem þeir sýndu honum. „Ég heiti ykkur þessu nú í kvöld, ég mun fara í öldungadeildina til að vinna fyrir alla íbúa Georgíu.“
Repúblikanarnir Kelly Loeffler og David Perdue sækjast eftir endurkjöri í kosningunum. Eins og áður sækist Raphael Warnock eftir sæti Loeffler og blaðamaðurinn Jon Ossoff eftir sæti Perdues. Enginn frambjóðendanna náði tilskildum 50% atkvæða til að vinna kosningarnar sem fram fóru í nóvember þegar Joe Biden fékk meirihluta atkvæða í ríkinu.
Repúblikanar sitja nú í 52 af 100 sætum í öldungadeildinni. Fari svo að demókratar vinni bæði sæti Georgíu í kosningunum hefur verðandi varaforseti Bandaríkjanna, Kamala Harris, úrslitaatkvæði í öldungadeildinni.