Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels segir að samkvæmt samningum sem þarlend stjórnvöld gerðu við Pfizer verði hægt að bólusetja alla Ísraela 16 ára og eldri gegn Covid-19 fyrir marslok eða jafnvel fyrr.
Ísraelsk stjórnvöld hafa greint frá því að vonir standi til að landið losni úr fjötrum kórónuveirufaraldursins í næsta mánuði, haldi bólusetningar áfram á sama hraða.
Bólusetningar hafa gengið hratt í Ísrael og hlutfallslega flestir bólusettir þar í landi. Hins vegar kemur fram í frétt Guardian að Arabar, sem eru 21% af íbúum landsins, mættu koma oftar í boðaða bólusetningu.
Bólusetning gegn Covid-19 hófst í Ísrael 19. desember en samkvæmt heilbrigðisráðuneyti landsins hafa 17,5% íbúa landsins og 70% eldri en 60 ára fengið fyrri sprautuna.