Stuðningsmenn Donalds Trumps, fráfarandi Bandaríkjaforseta, fjölmenntu í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, í gær þar sem þingið kom saman til að staðfesta úrslit kosninganna sem fóru fram í nóvember. Upp úr sauð í gærkvöldi þegar æstur múgur réðist inn í þinghúsið.
Gera varð hlé á fundi þingsins, bæði í efri og neðri deildinni, eftir að óboðnir gestir voru komnir inn á ganga, skrifstofur og í fundarsali þingsins. Það sló í brýnu á milli lögreglu og boðflennanna og að minnsta kosti fjórir hafa látið lífið.
Að lokum tókst að rýma svæðið og þingið gat haldið áfram störfum sínum og hefur nú formlega staðfest að Joe Biden er réttkjörinn 46. forseti Bandaríkjanna.