Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur óskað eftir aðstoð almennings við að bera kennsl á þá sem tóku þátt í óeirðunum sem enduðu með því að múgur braust inn í bandaríska þinghúsið í Washington.
Þetta kemur fram á heimasíðu FBI.
Ekki er einungis óskað eftir ábendingum og upplýsingum heldur hefur FBI óskað eftir myndum og myndböndum.
„FBI óskar eftir upplýsingum sem geta aðstoðað við að bera kennsl á einstaklinga sem með virkum hætti ýttu undir eða hvöttu til ofbeldis í Washington D.C. FBI þiggur ábendingar, stafrænt efni af óeirðum og ofbeldi í þinghúsinu og nærliggjandi svæði í Washington D.C. þann 6. janúar 2021,“ segir í tilkynningu á heimasíðunni.
Á síðunni er hlekkur þar sem hægt er að hlaða upp efni.
Einhverjir þátttakendur í óeirðunum hafa þegar gefið sig fram.