Hræðsla við aðra bylgju í Kína

Mynd sem tekin var á skimunarstöð í borginni í gær.
Mynd sem tekin var á skimunarstöð í borginni í gær. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa lokað hluta borgarinnar Shijiazhuang í Heibei. Þar hafa nú greinst tugir kórónuveirusmita. Borgin er staðsett í um þriggja klukkustunda fjarlægð frá höfuðborginni Peking. 

Settar hafa verið mjög strangar reglur í borginni í vikunni og eru þetta mestu takmarkanir sem verið hafa í gildi þar í landi frá því í marsmánuði. Búið er að koma í veg fyrir að farþegar komist til borgarinnar með lestum eða öðrum almenningssamgöngum. Þá hefur stórum umferðaræðum verið lokað að því er fram kemur í kínverskum miðlum. 

Faraldur á siglingu

Alls greindust 107 einstaklingar með kórónuveiruna í dag. Þar af voru 50 með einkenni en hinir einkennalausir. Samtals hafa greinst 234 smit í Heibei-héraði og svo virðist sem faraldurinn sé á talsverðri siglingu á svæðinu. 

Framangreind smit eru að greinast einungis nokkrum vikum eftir að stjórnvöld í Peking greindu frá því að nokkur smit hafi greinst í borginni. Frá þeim tíma hefur verið farið í umfangsmiklar aðgerðir þar sem íbúar í norðurhluta landsins eru látnir taka kórónuveirupróf. 

Fjölmargir voru prófaðir.
Fjölmargir voru prófaðir. AFP

Önnur bylgja?

Að því er fram kom í máli Feng Zijian, sóttvarnalæknis í Kína, virðist sem veiran hafi smitast milli fólks um nokkurt skeið. Þannig sé enn óljóst hversu slæmt ástandið er, en hugsanlegt er að önnur bylgja sé að fara af stað. Alls búa um 11 milljónir manna í Shijiazhuang. 

Bólusetningar eru hafnar af fullum krafti í Kína. Um síðustu helgi voru fyrstu einstaklingarnar sprautaðir. Bólu­sett er með efni frá kín­verska fyr­ir­tæk­inu Sin­oph­arm en það hlaut neyðarleyfi kín­verskra yf­ir­valda á dög­un­um. Bólu­efnið frá Sin­oph­arm er sagt veita vörn gegn Covid-19-smiti í 79% til­fella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert