Hörmulegur öryggisbrestur varð í viðbrögðum við árás stuðningsmanna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á bandaríska þinghúsið í Washington í gær. Borgin er nú þegar í viðbragðsstöðu og starfa 2.000 lögreglumenn hjá þinghúsinu. Samt sem áður náði fólk að þvinga sig inn í helgidóm bandarísks lýðræðis með ekkert annað en flaggstangir, skildi og skóflur að vopni.
Þetta kemur fram í frétt Washington Post.
Enginn stöðvaði fólkið og myndband náðist af því þegar nokkrir lögreglumenn virtust standa hjá á sama tíma og óeirðaseggir streymdu inn í þinghúsið.
Á meðan lögreglumenn stóðu enn í ströngu við að hrekja síðustu boðflennurnar út úr þinghúsinu í gær sögðu núverandi og fyrrverandi lögreglumenn að svo virtist sem lögreglunni í Washington og fleiri stofnunum hefði mistekist að gera ráð fyrir stærð og ásetningi mannfjöldans.
Á götum Washington voru alríkislögreglan og þjóðvarðarliðið mun minna sýnileg en í Black Lives Matter mótmælum sem stóðu hæst í sumar eftir að lögreglumenn drápu George Floyd, svartan bandarískan karlmann.
Við þinghúsið sjálft hafði lögreglan einungis sett fram takmarkaðar hindranir og lögreglumenn voru flestir klæddir í hefðbundinn lögregluklæðnað og því ekki búnir undir óeirðir. Allir voru tilbúnir í að setja óeirðunum takmörk en ekki að hindra árás, sögðu lögreglumenn sem Washington Post ræddi við.
Sérfræðingar í löggæslu sögðu að þeir væru ringlaðir yfir aðgerðunum sem lögreglan beitti þegar múgurinn hafði brotið sér leið inn í þinghúsið.
Ein kona var skotin og drepin af lögreglumönnum þegar þeir reyndu að koma í veg fyrir að múgurinn kæmist inn í bygginguna, að sögn tveggja lögreglumanna sem rætt var við en þeir óskuðu nafnleyndar.
Aðrir lögreglumenn virtust standa hjá, fylgjast með árásinni án þess að stöðva hana. Mynd sem birt var á samfélagsmiðlum sýndi lögreglumann taka sjálfsmynd með einum þeirra sem brutust inn í þinghúsið og myndband virtist sýna lögreglumenn opna öryggisgirðinguna til að hleypa stuðningsmönnum Trumps nær.
Lögreglan virtist ekki reyna að taka mótmælendurna föngum og leyfði þeim að yfirgefa svæðið óhindrað. Einn meira að segja hélt í hönd konu til þess að hjálpa henni upp tröppurnar að þinghúsinu.
Niðurstaðan var innrás múgsins.
„Þetta er eins og að horfa á hryllingsmynd raungerast. Ég meina, við þjálfum okkur og skipuleggjum okkur daglega til þess að þetta gerist ekki,“ sagði Kim Dine, sem var lögreglustjóri þinglögreglunnar frá árinu 2011 til 2016. „Hvernig gat þetta gerst? Ég geti ekki gert mér grein fyrir því.“
Dine sagði að hann hefði verið hissa þegar hann sá að lögregla þingsins hafi leyft óeirðarseggjunum að komast svo nálægt þinghúsinu og að þegar þeir þvinguðu sér leið inn hafi þeir ekki verið handteknir þegar í stað.
„Við verndum fólkið, staðinn og ferlið sem gerir okkur að Bandaríkjunum, þess vegna erum við þarna,“ sagði Dine. „Fólkið, staðurinn, ferlið - það var ráðist á allt.“
Lögreglan í Washington segir að 52 hafi verið handteknir, þar af 47 fyrir að brjóta útgöngubann og að brjóta sér leið inn í þinghúsið. Að sögn lögreglumanns á svæðinu var lögreglan ekki nægilega vel mönnuð til að standa í fleiri handtökum.