Ríkisstjórn Japans kynnti í dag hertar sóttvarnaráðstafanir en neyðarástandi hefur verið lýst yfir í höfuðborg landsins, Tókýó, og nágrenni.
Nýjar reglur taka gildi á morgun og gilda í mánuð. Þær eru vægari en þær reglur sem settar voru í Japan í vor þegar fyrsta bylgja Covid-19 reið yfir og eins eru þær vægari en sóttvarnareglur í mörgum öðrum ríkjum.
Veitingastöðum og börum er gert að hætta að veita áfengi klukkan 19 og stöðum gert að loka klukkustund síðar. Fólk er beðið um að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu eftir klukkan 20 og fyrirtæki hvött til að biðja starfsmenn um að fara í fjarvinnu. Með því á að draga úr umferð sem nemur 70%.
Ráðherrann sem fer með kórónuveirufaraldurinn í ríkisstjórn Japans segir að á hverjum degi berist fréttir af nýjum metum hvað varðar fjölda smita og álagið sé gríðarlegt á heilbrigðiskerfið.
Tæplega 2.500 ný smit voru staðfest í Tókýó í dag og var þar með met dagsins í gær slegið en þá voru þau tæplega 1.600. Alls hafa rúmlega 3.700 látist af völdum Covid-19 í Japan frá því veiran greindist þar fyrst í janúar í fyrra.
Skólar verða áfram opnir og helstu stóratburðir eru heimilaðir. Fjöldatakmörk eru miðuð við fimm þúsund manns eða 50% af því sem mögulega er hægt að taka á móti. Sex mánuðir eru þangað til Ólympíuleikarnir eiga að hefjast í Tókýó.