Segir samfélagsmiðla ritskoða Trump

Andres Manuel López Obrador, forseti Mexíkó.
Andres Manuel López Obrador, forseti Mexíkó. AFP

Andres Manuel López Obrador, forseti Mexíkó, gagnrýnir samfélagsmiðla og segir þá ritskoða Donald Trump Bandaríkjaforseta en Twitter, Facebook og Instagram hafa öll sett forsetann í kælingu eftir að þúsund­ir stuðnings­manna Trump réðust inn í banda­ríska þing­húsið í gær.

„Ég er ekki hrifinn af ritskoðun. Miðlarnir taka burt rétt fólks til að senda út skilaboð á Twitter eða Facebook. Ég er ekki sammála þessu og sætti mig ekki við þetta,“ sagði López Obrador við fréttamenn í dag.

Donald Trump og Andres Manuel López Obrador.
Donald Trump og Andres Manuel López Obrador. AFP

Forsetinn sagði að það væri ríkja að vega og meta hvort ummæli væru skaðleg en einstaka fyrirtæki ættu ekki að gera það. Fólk ætti að fá frelsi til að tjá sig á samfélagsmiðlum.

Twitter læsti aðgangi forsetans í gærkvöldi og síðdegis að íslenskum tíma greindi Mark Zucker­berg, stofn­andi og for­stjóri Face­book, frá því að reikningi Trump á Facebook og Instagram hefði verið lokað um óákveðinn tíma.

López Obrador neitaði að tjá sig um ofbeldið í bandarísku höfuðborginni í gær og sagði að stjórnvöld í Mexíkó skiptu sér ekki af innanríkismálum annarra landa.

Fram kemur í frétt AFP að samband López Orbador og Trump hafi verið gott, það gott að mexíkóski forsetinn var einn af síðustu þjóðarleiðtogum heims til að óska Joe Biden til hamingju með sigurinn í bandarísku forsetakosningunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert