„Valdarán vitfirringar“

AFP

Fjölmiðlar víðs vegar um heiminn fjalla um atburðina við og í þinghúsi Bandaríkjanna. Á forsíðum dagblaða má sjá fyrirsagnir eins og: Trump kveikir í Washington, Umsátur um lýðræðið og Valdarán vitfirringar.

Flestir fjölmiðlar saka fráfarandi forseta Bandaríkjanna um að þetta skyldi gerast, að hann hafi hvatt stuðningsmenn sína til að grípa til ofbeldis. AFP-fréttastofan tók saman efni úr nokkrum fjölmiðlum víða um heim.

Fyrirsögnin á Times í Bretlandi er: Stuðningsmenn Trumps ryðjast inn í hjarta bandaríska lýðræðisins. Þar er því lýst hvernig bæði demókratar og repúblikanar eru látnir fá gasgrímur og komið í skjól undir borðum. 

Fyrirsögn Daily Telegraph er: Umsátur um lýðræðið. Þar er fjallað um fordæmalausa atburði þar sem ofbeldi og stjórnleysi réð ríkjum eftir að hjörð stuðningsmanna Trumps ruddist inn í þinghúsið.

Guardian lýsir atburðunum sem mestu áskorun sem bandaríska lýðræðið hafi staðið frammi fyrir síðan í borgarastríðinu.

Orð eins og glundroði og hneisa eru orð sem aftur og aftur koma upp þegar flett er í gegnum helstu dagblöð Evrópu í morgun.

Í leiðara Die Welt segir: Dagur skammar fyrir bandarískt lýðræði. Þar skrifar Clemens Wergin að Bandaríkin hafi í fyrsta skipti séð tilraun til valdaráns. Ábyrgðin sé forsetans, lygar hans og kjarkleysi Repúblikanaflokksins beri þar pólitíska ábyrgð.

Fyrirsögn Süddeutsche Zeitung: Valdarán vitfirringar. Þar er talað um hneisu Washington og El Pais á Spáni segir að Trump hafi hvatt til glundroðans.

Ítalska dagblaðið La Repubblica gengur lengra og dregur fram samsvörun við það þegar ítalski einræðisherrann Benito Mussolini komst til valda á þriðja áratug síðustu aldar. Þar segir að bandaríska þjóðin hafi fylgst með atburðum í hryllingi sem minntu helst á göngu Mussolini inn í Róm með stuðningsmönnum sínum. Innrásin í þinghúsið, árásin á griðastað lýðræðisins.

La Corriere della Serra fjallaði um stuðningsmenn Trumps, Proud Boys, öfgahægrisinna en einnig konur og ungmenni. Vísaði í Trump sem reyndi undir lokin að draga úr múgsefjuninni en of seint.

Franska dagblaðið Liberation fjallar um glundroða í boði Trumps og að Trump hafi kveikt í Washington. Árás Donalds Trumps á lýðræðið varð áþreifanleg og um leið táknræn í gær þegar stuðningsmenn hans tendruðust upp undir ræðu hans og tókst að brjótast inn í þinghúsið. 

Í Le Figaro segir að Donald Trump hefði getað staðið uppi sem sterkur forseti fólksins en þess í stað hafi sjálfsást hans haft betur, hann traðkað á lýðræðinu, alið á sundrungu og komið forsetatíð hans í ruslið. 

Brasilíska blaðið O Globo segir að Bandaríkin séu komin á sama stig og ríki Rómönsku-Ameríku.

„Skotmarkið var þinghúsið ekki Tvíburaturnarnir en þetta var líka hryðjuverk,“ segir í brasilíska dagblaðinu O Estado de S. Paulo.

Egypska dagblaðið Al-Ahram segir að lýðræðinu hafi verið fórnað og frelsinu í Bandaríkjunum. Hjá ríki sem hefur ítrekað haft bein afskipti af málefnum annarra ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert