Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, fordæmdi árásina á þinghús Bandaríkjanna í ávarpi sem hann birti á Twitter nú fyrir stundu. Sagði forsetinn að líkt og allir Bandaríkjamenn sé honum misboðið vegna ofbeldisins og lögleysunnar sem þar fór fram.
Fjórir létust er hópur ofstækisfullra stuðningsmanna Trumps réðst inn í þinghúsið á miðvikudag til að reyna að stöðva staðfestingu demókratans Joe Bidens sem næsta forseta Bandaríkjanna.
Í ávarpinu hét Trump því að uppreisnarseggirnir myndu gjalda fyrir gjörðir sínar. „Til þeirra sem tóku þátt í ofbeldi og eyðilegginu: Þið eruð ekki fulltrúar þjóðarinnar. Og til þeirra sem brutu lögin: þið munuð gjalda fyrir það,“ sagði Trump.
Kvað þar við annan tón en í ávarpi forsetans í gær, meðan árásin stóð yfir, en þar sagðist hann skilja reiði og sársauka mótmælenda þar sem forsetakosningunum hefði verið stolið frá honum. Sagðist hann elska mótmælendur á sama tíma og hann bað þá að fara úr þinghúsinu. Það myndband var einnig birt á Twitter, en í kjölfarið fjarlægði samfélagsmiðillinn myndbandið og lokaði reikningi forsetans í tólf klukkustundir.
Trump hefur tjáð sig um lítið annað en meint kosningasvindl síðustu vikur, en því var ekki að heilsa í ávarpinu nú. Án þess að staðhæfa neitt um kosningasvindl sagði forsetinn að framboð hans hefði reynt allar leiðir til að fá úrslitum kosninganna hnekkt. „Mitt eina markmið var að verja heilindi kosninganna. Því barðist ég svo hægt væri að verja lýðræðið í landinu.“
Þá sagðist Trump leggja áherslu á friðsæl valdaskipti þegar ný ríkisstjórn tæki við síðar í janúar, án þess þó að nefna Joe Biden, kjörinn forseta, á nafn.
Þá hélt hann því fram að hann hefði „umsvifalaust“ kallað þjóðvarðliðið og alríkislögreglumenn til að tryggja öryggi byggingarinnar og fjarlægja innrásarmennina. Því hefur þó verið haldið fram að Trump hafi verið tregur til að kalla á liðsstyrk til að fjarlægja lýðinn, en innrásin stóð í um þrjá klukkutíma.
Tveir ráðherrar úr ríkisstjórn Trumps hafa sagt af sér embætti í kjölfar árásarinnar, sem þeir telja forsetann bera ábyrgð á með framferði sínu síðustu vikur.
Fyrst var Elaine Chao samgönguráðherra sem tilkynnt um afsögn sína, en hún tekur þó ekki gildi fyrr en á mánudag. Chao er eiginkona Mitch McConell, leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni.
Betsy DeVos menntamálaráðherra tilkynnti síðan uppsögn sína á fimmtudag. Í uppsagnarbréfi sínu sagði hún engum vafa undirorpið hver áhrif orðræðu forsetans voru á „ofbeldisfulla mótmælendur“ sem réðust inn í þinghús Bandaríkjanna á fimmtudag.