Farþegaflugvél er horfin af ratsjám í Indónesíu, skömmu eftir að hún tók á loft frá höfuðborginni Jakarta. Samkvæmt fréttastofu AFP liggur ekki fyrir hve margir eru innanborðs í vélinni, sem tekur um 130 farþega, en samkvæmt upplýsingum BBC eru rúmlega 50 farþegar um borð.
Um er að ræða 27 ára gamla Boeing 737-500-flugvél Sriwijaya Air sem var á leið til Pontianak í Vestur-Kalimantan.
Samkvæmt Flightradar24 hafði flugvélin misst hæð um 3.000 metra á innan við mínútu áður en hún hvarf af ratsjám.
Að sögn samgönguráðuneytis Indónesíu eru björgunaraðilar í viðbragðsstöðu, en á samfélagsmiðlum og sjónvarpsstöðvum má sjá myndir og myndskeið af því sem virðist vera brak úr flugvélinni á sjó úti.
Rétt rúm tvö ár eru síðan mannskætt flugslys varð í Indónesíu þegar Boeing 737-MAX-vél Lion Air hrapaði með þeim afleiðingum að allir 189 um borð létust. Skömmu síðar hrapaði flugvél Ethiopian Airlines af sömu gerð og hefur flugvélaframleiðandinn Boeing orðið fyrir miklu tapi síðan vegna kyrrsetningar vélanna og bótagreiðslna vegna galla í flugvélunum.
Tekið skal fram að flugvélin sem horfin er af ratsjám í Indónesíu í dag er ekki af sömu gerð.
Fréttin verður uppfærð.