Samfélagsmiðillinn Twitter er farinn í hart við Donald Trump Bandaríkjaforseta, en miðillinn hefur nú fjarlægt færslu frá opinberum Twitter-aðgangi forseta Bandaríkjanna eftir að Trump jós þar úr skálum reiði sinnar í kjölfar þess að lokað var á persónulegan aðgang hans á miðlinum.
Twitter hefur ákveðið að loka aðgangi forsetans ótímabundið, en ákvörðunin er sögð hafa verið tekin vegna þess að fosetinn þyki of hættulegur til að nota samfélagsmiðilinn.
Í kjölfarið brá Trump á það ráð að tísta frá opinberum aðgangi forsetaembættis Bandaríkjanna, þar sem hann sakaði Twitter, í samvinnu við Demókrataflokkinn og öfgavinstrið, um brot á málfrelsinu og að þagga niður í honum og þeim „75.000.000 sem kusu hann“. Twitter hefur eytt færslu forsetans og er hún hvergi sjáanleg á opinbera aðgangnum (@POTUS).
Í yfirlýsingu frá Trump lofar hann stuðningsmönnum sínum að þeir muni brátt geta fylgst með honum á öðrum vettvangi.
Trump og Twitter hafa um nokkurt skeið eldað grátt silfur saman, eða síðan Twitter hóf að setja fyrirvara við færslur Trump í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum á síðasta ári.
Samfélagsmiðillinn ákvað svo að grípa til enn harðari aðgerða á miðvikudag í kjölfar þess að múgur stuðningsmanna Trump braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna, en Trump er sakaður um að hafa kynt undir árásinni með orðum sínum.