Það styttist óðum í þingkosningar í Noregi en þær fara fram 13. september nk. og bendir allt til þess, miðað við það hvernig mál standa nú, að vera Noregs í EES-verði tekin til skoðunar í kjölfar kosninganna þrátt fyrir að flokkar sem vilja verja samninginn fái meirihluta á þinginu.
Ein mesta breyting í norskum stjórnmálum undanfarin misseri er gríðarleg fylgisaukning norska Miðflokksins (n. Senterpartiet) í könnunum. Flokkurinn, sem á síðustu öld var landsbyggðarflokkur sem hallaðist til hægri, hefur á 21. öldinni orðið smáflokkur sem hallar frekar til vinstri. Hefur hann átt aðild að svokallaðri rauð-grænni fylkingu norskra stjórnmála sem árin 2005 til 2013 myndaði ríkisstjórn Jens Stoltenberg, þáverandi formanns Verkamannaflokksins.
Miðflokkurinn, sem nú mælist með um 19-20% fylgi, er samkvæmt nýjustu könnunum annaðhvort næststærsti eða þriðji stærsti flokkur landsins. Þennan aukna styrk í könnunum hefur hann nýtt til að setja EES-samninginn aftur á dagskrá ásamt Sósíalíska vinstriflokknum (n. Sosialistisk venstreparti), en flokkarnir hafa í áraraðir verið andsnúnir samningnum.
Það er hins vegar ekki aðeins fylgisaukning sem gefur flokkunum tilefni til þess að endurvekja umræðuna um EES-samninginn heldur vilja fulltrúar þeirra meina að Bretar hafi með sínum samningi við Evrópusambandið vegna útgöngu þeirra úr sambandinu fengið mun betri kjör en Noregur fær í gegnum EES, að samkomulagi Breta og ESB um fiskveiðar undanskildu.
„Bretland hefur nú fengið samning sem gefur þeim meira frelsi og aukið sjálfstæði,“ hefur Klassekampen eftir Marit Arnstad, þingflokksformanni Miðflokksins. Telur Arnstad að með samningnum hafi Bretar tryggt aðgang að innri markaði ESB án þess að skuldbinda sig gagnvart stöðugt aukinni samþættingu regluverks aðildarríkjanna sem setja hömlur á sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Kveðst hún hins vegar setja fyrirvara varðandi tilhögun samkomulagsins um fiskveiðar.
Undir þetta tekur Heming Olaussen, stjórnarmaður í miðstjórn Sósíalíska vinstriflokksins. „Brexit-samningurinn sýnir að það er augljóslega hægt að finna betri valkosti en EES. Brexit sannar að viðskipti við ESB séu ekki háð aðild að EES.“
Samkvæmt könnun sem dagblaðið VG birti sl. fimmtudag fá vinstriflokkarnir meirihluta á norska Stórþinginu. Hins vegar er einnig ljóst að ríkisstjórn vinstriflokka verður ekki mynduð án sósíalista og miðflokksmanna enda mælist Verkamannaflokkurinn aðeins með 20,5%.
Verkamannaflokkurinn hefur ávallt verið talsmaður aðildar Noregs að EES-samningnum og hefur jafnframt stutt aðild að ESB. Var því eðlilegt að Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, lýsti því yfir í Dagsavisen á dögunum að flokkurinn hyggist ekki eiga aðild að ríkisstjórn sem ekki hefur EES-aðild sem grundvallaratriði í stefnu sinni.
Hefur formaðurinn þó sagst reiðubúinn til að láta undan kröfu um að láta gera úttekt á valkostum öðrum en EES. Sagði Støre þetta þrátt fyrir að hafa lýst því yfir að flokkurinn telji ekki tilgang í að „nota tíma og orku á þessa tegund af úttektum miðað við stöðuna sem ríkir í Noregi í dag“.
Flokkurinn, þrátt fyrir afdráttarlausa afstöðu sína til EES, er ekki einungis í þeirri stöðu að verða fyrir þrýstingi mögulegra samstarfsflokka heldur er einnig um að ræða þrýsting að innan. Norska alþýðusambandið LO á sæti í miðstjórn flokksins og hefur Fellesforbundet, stærsta stéttarfélagið innan LO, krafist að leitað verði leiða og valkosta sem ekki fela í sér áframhaldandi aðild að EES-samningnum, að því er fram hefur komið í umfjöllun Aftenposten.
Eini stóri bandamaður Verkamannaflokksins í spurningunni um EES er Hægriflokkurinn (n. Høyre) sem hefur í áraraðir, eins og Verkamannaflokkurinn, talið hag Noregs best borgið innan ESB. Flokkurinn, sem leiðir ríkisstjórnarsamstarf hægriflokka, stefnir að verulegri fylgisaukningu og mun verða samkvæmt könnunum stærsti flokkur Noregs. Mælist hann með 25,6% fylgi, en samstarfs- og stuðningsflokkar hans ná ekki nægilegu fylgi til að ríkisstjórnin haldi meirihluta á þingi.
Andstæðingar aðildar Noregs að EES-samningnum gætu því endað í oddastöðu í kjölfar kosninganna í haust. Eina leiðin fram hjá því væri að Verkamannaflokkurinn og Hægriflokkurinn myndi samstarf, en litlar líkur eru á því.