Ellefu nöfn lesin upp í kirkjunni

Minningarathöfnin um hina látnu í hamförunum í Gjerdrum 30. desember …
Minningarathöfnin um hina látnu í hamförunum í Gjerdrum 30. desember hófst klukkan 11 í morgun í Gjerdrum-kirkju, svipmikilli krosskirkju byggðri árið 1686. Ljósmynd/Norska kirkjan

„Í dag komum við saman í sorgarguðsþjónustu. Við syrgjum það sem við höfum upplifað hér í Gjerdrum síðustu daga.“ Með þessum orðum hóf séra Liv Berg Krohn-Hansen, prófastur í Efra-Raumaríki í Noregi, mál sitt við minningarathöfn um fórnarlömb náttúruhamfaranna í Ask 30. desember sem haldin var í Gjerdrum-kirkju í morgun.

Söngskáldið Trygve Skaug söng því næst Dvel hjá mér, Guð eftir skoska sálmaskáldið Henry Francis Lyte áður en ellefu nöfn hinna látnu voru lesin upp í kirkjunni, ellefta nafnið tilheyrði Isak Grymyr Jansen sem enn var í kviði móður sinnar, Charlot Grymyr Jansen, en öll fjölskyldan lést í hamförunum.

„Tónlist er okkur mikilvæg í sorg og gleði. Tónlistin ber okkur og hún hjálpar okkur að skynja tilfinningar okkar. Tónlistin kemur orðum að því sem er erfitt. Við höfum upplifað það núna að vera orðlaus,“ sagði séra Krohn-Hansen.

Séra Liv Berg Krohn-Hansen, prófastur í Efra-Raumaríki, sagði tónlistina mikilvæga …
Séra Liv Berg Krohn-Hansen, prófastur í Efra-Raumaríki, sagði tónlistina mikilvæga í gleði og sorg, hún hjálpaði við að skynja tilfinningar og kæmi orðum að því sem erfitt væri að koma í orð. Ljósmynd/Úr einkasafni

Meðal viðstaddra voru Erna Solberg forsætisráðherra, Tone Wilhelmsen Trøen forseti Stórþingsins og Anders Østensen bæjarstjóri Gjerdrum og flutti Trøen þingforseti viðstöddum ræðu þar sem hún lýsti meðal annars sorg sinni yfir að fólk skyldi þola slík ósköp á heimilum sínum sem væru griðastaðir þar sem íbúarnir kæmust í var.

Séra Jakob Furuseth sóknarprestur tók einnig til máls við athöfnina, sem var fámenn vegna sóttvarnareglna, og sagði byggðarlagið hafa orðið fyrir áfalli sem enginn gæti ímyndað sér og reynt hefði íbúana til hins ýtrasta.

Þá ávarpaði séra Torbjørn Olsen, flugvallaprestur Avinor, kirkjugesti og ræddi um sorgina í tengslum við hið óvænta og starf hjálparliðs og viðbragðsaðila í kjölfar hörmunganna, lögreglu, hers, heilbrigðisstarfsfólks og björgunarsveita.

„Í Gjerdrum og í Ask er nú sár. Það er 700 metra langt og 300 metra breitt, sár á náttúrunni sem verður þar um alla framtíð,“ sagði séra Olsen meðal annars í erindi sínu.

NRK

VG

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert