Frumvarp um útgöngubann tilbúið í Noregi

Ráðuneyti Monicu Mæland dómsmálaráðherra stendur að baki nýju frumvarpi um …
Ráðuneyti Monicu Mæland dómsmálaráðherra stendur að baki nýju frumvarpi um útgöngubann sem að fengnu lagagildi gerði norskum stjórnvöldum kleift að setja á útgöngubann í hlutum landsins í allt að 21 sólarhring með möguleika á 14 sólarhringa framlengingu komi til hreins neyðarástands vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Kjetil Ree

Norski dómsmálaráðherrann Monica Mæland lagði á föstudag fram nýtt frumvarp til laga um útgöngubann í samráðsgátt norskra stjórnvalda með umsagnarfresti til og með 31. janúar. Öðlist frumvarpið lagagildi gerir það norskum stjórnvöldum kleift að setja á útgöngubann, það er banna almenningi að yfirgefa heimili sín, í allt að 21 sólarhring í einu með möguleika á 14 sólarhringa framlengingu.

„Fram að þessu höfum við til allra heilla komist hjá því að grípa til hinna ýtrustu þvingunarráðstafana,“ segir Mæland í fréttatilkynningu og vísar til útgöngubanns annarra Evrópuþjóða, svo sem Frakka og Spánverja, í þeirri viðleitni að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem enn vex fiskur um hrygg á nýju ári.

Miklar skorður við beitingu

„Ég vona sannarlega að við verðum laus við þetta í Noregi, en gerist þess knýjandi þörf er nauðsynlegt að við höfum þau verkfæri sem þarf,“ segir ráðherra enn fremur.

Frumvarpið gerir ráð fyrir miklum skorðum við beitingu útgöngubanns, tilkynna beri Stórþinginu þegar í stað um yfirvofandi útgöngubann með ítarlegum rökstuðningi auk þess sem þingið getur, innan sjö daga frá samþykkt frumvarps, ákveðið að fella það úr gildi, að hluta eða í heild.

Samkvæmt frumvarpinu munu stjórnvöld aðeins geta sett á útgöngubann í afmörkuðum landshlutum hverju sinni og ekki allan sólarhringinn.

Vantraust í garð þegnanna

Per-Willy Amundsen, þingmaður Framfaraflokksins (FrP), kveðst í tölvupósti til norska ríkisútvarpsins NRK leggjast alfarið gegn frumvarpinu. „Útgöngubann er mjög alvarlegt inngrip sem brýtur í bága við stjórnarskrá og grundvallarmannréttindi borgaranna. Ríkisstjórnin ætti heldur að einbeita sér að því að stórauka eftirlit á landamærum,“ skrifar hann og kveður útgöngubann auk þess fela í sér ákveðið vantraust í garð þegnanna.

Norsk stjórnvöld hafa unnið að undirbúningi laga um útgöngubann frá því í nóvember þótt sú vinna hafi ekki komist í hámæli fyrr en nú. Meðal annars sendu þau spurningalista til norskra sendiráða í öllum Evrópuríkjum, sem gripið hafa til útgöngubanns, þar sem sendierindrekar voru meðal annars spurðir út í framkvæmd útgöngubannsins, eftirlit með því og önnur atriði er lúta að beitingu þessarar þvingunarráðstöfunar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir sektum eða fangelsisvist sem viðurlögum við brotum gegn útgöngubanni verði einhvern tímann gripið til þess í Noregi sem dómsmálaráðherra fullyrðir þó að verði ekki fyrr en öll sund virðist lokuð og þangað sé langur vegur miðað við ástandið nú.

NRK

VG

Aftenposten

Dagsavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert