Öfgahópur skelfir lítið samfélag

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Fjölmargir íbúar Murdocks, lítils þorps í Minnesota í Bandaríkjunum, eru óttaslegnir eftir að í ljós kom að hópur hvítra þjóðernissinna hafði fest kaup á kirkju í þorpinu. Íbúar þorpsins eru um 300 talsins. New York Times greinir frá.

Hópurinn, sem nefnist Asatru Folk Assembly, aðhyllist norræna goðafræði og flokkast því sem trúfélag. Forsaga málsins er sú að hópurinn festi kaup á kirkju í bænum í desembermánuði í fyrra. Kirkjan hafði verið afhelguð og því var hægt að selja hana. 

Í kjölfarið bauð umræddur öfgahópur í kirkjuna. Það spurðist fljótlega út sem jafnframt olli mikilli óánægju meðal íbúa Murdocks. Hins vegar var það svo að bæjaryfirvöld gátu lítið gert til að koma í veg fyrir kaupin enda ekki hægt að mismuna kaupendum á grundvelli trúar. Salan gekk því í gegn. 

Félagar 500 talsins

Alls eru félagar Asatru 500 talsins, en trúfélagið, ef svo má kalla, er talið einkar hættulegt. Þá hafa mannréttindasamtök skilgreint það sem öfgahóp. Snúa áhyggjur þorpsbúa einna helst að því að bærinn muni með tíð og tíma breytast í skjól fyrir öfgamenn. 

Bandaríska alríkislögreglan hefur nokkrum sinnum þurft að hafa afskipti af hópnum. Hefur hópurinn m.a. skipulagt sprengingar og skotárásir á kirkjur svartra Bandaríkjamanna og gyðinga. Slíkt hefur þó ekki tekist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert