Sækja flugrita vélarinnar

00:00
00:00

Flug­rit­ar vél­ar­inn­ar sem hrapaði í Java­haf skömmu eft­ir flug­tak í gær­morg­un eru fundn­ir. Björg­un­ar­sveit­ir hafa verið í leit­araðgerðum á svæðinum frá því í gær­morg­un og ættu kafar­ar á veg­um hers­ins að geta sótt rit­ana á sjáv­ar­botni von bráðar. Þetta segja yf­ir­völd í Indó­nes­íu.

Talið er að 62 hafi far­ist þegar vél­in, sem var af gerðinni Boeing 737, hrapaði til jarðar. Björg­un­ar­menn hafa þegar borið kennsl á lík­ams­leif­ar og brak úr vél­inni.

„Við höf­um fundið staðsetn­ingu svörtu kass­anna beggja,“ hef­ur AFP eft­ir Soerj­anto Tja­hjono, yf­ir­manni ör­ygg­is­nefnd­ar sam­göngu­mála í land­inu.

Flug­rit­ar, sem oft eru nefnd­ir svart­ir kass­ar, eru sér­stök raf­tæki sem skrá­setja upp­lýs­ing­ar um flug­ferðir, svo sem hraða, staðsetn­ingu, stefnu og ástand vél­ar­inn­ar. Þeir eru sér­stak­lega hannaðir til að þola brot­lend­ingu. Gegna þeir því lyk­il­hlut­verki við að varpa ljósi á aðdrag­anda og or­sak­ir flug­slysa.

For­stjóri flug­fé­lags­ins, Sriwijaya Air, hef­ur sagt að vél­in hafi verið í góðu ástandi þrátt fyr­ir að hafa verið 26 ára. 

Flug­slys eru tíð í Indó­nes­íu í sam­an­b­urði við önn­ur lönd. Eins og áður hef­ur verið rifjað upp. Rétt rúm tvö ár eru síðan mann­skætt flug­slys varð í land­inu þegar Boeing 737-MAX-vél Lion Air hrapaði með þeim af­leiðing­um að all­ir 189 um borð lét­ust. 

Árið 2014 lét­ust 162 þegar flug­vél Indo­nesia AirAs­ia hrapaði á leið frá Sura­baya til Singa­púr. Ári síðar lét­ust yfir 140, þar af tug­ir á jörðu niðri, þegar herflug­vél hrapaði stuttu eft­ir flug­tak á eyj­unni Súmötru.

Björgunarmenn undirbúa líkpoka.
Björg­un­ar­menn und­ir­búa lík­poka. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert