Flugritar vélarinnar sem hrapaði í Javahaf skömmu eftir flugtak í gærmorgun eru fundnir. Björgunarsveitir hafa verið í leitaraðgerðum á svæðinum frá því í gærmorgun og ættu kafarar á vegum hersins að geta sótt ritana á sjávarbotni von bráðar. Þetta segja yfirvöld í Indónesíu.
Talið er að 62 hafi farist þegar vélin, sem var af gerðinni Boeing 737, hrapaði til jarðar. Björgunarmenn hafa þegar borið kennsl á líkamsleifar og brak úr vélinni.
„Við höfum fundið staðsetningu svörtu kassanna beggja,“ hefur AFP eftir Soerjanto Tjahjono, yfirmanni öryggisnefndar samgöngumála í landinu.
Flugritar, sem oft eru nefndir svartir kassar, eru sérstök raftæki sem skrásetja upplýsingar um flugferðir, svo sem hraða, staðsetningu, stefnu og ástand vélarinnar. Þeir eru sérstaklega hannaðir til að þola brotlendingu. Gegna þeir því lykilhlutverki við að varpa ljósi á aðdraganda og orsakir flugslysa.
Forstjóri flugfélagsins, Sriwijaya Air, hefur sagt að vélin hafi verið í góðu ástandi þrátt fyrir að hafa verið 26 ára.
Flugslys eru tíð í Indónesíu í samanburði við önnur lönd. Eins og áður hefur verið rifjað upp. Rétt rúm tvö ár eru síðan mannskætt flugslys varð í landinu þegar Boeing 737-MAX-vél Lion Air hrapaði með þeim afleiðingum að allir 189 um borð létust.
Árið 2014 létust 162 þegar flugvél Indonesia AirAsia hrapaði á leið frá Surabaya til Singapúr. Ári síðar létust yfir 140, þar af tugir á jörðu niðri, þegar herflugvél hrapaði stuttu eftir flugtak á eyjunni Súmötru.