NATO-heræfingin Joint Viking 2021 í Bardufoss í Indre Troms í Noregi, sem gert er ráð fyrir að 3.000 hermenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi taki þátt í ásamt 7.000 norskum hermönnum, fékk enga óskabyrjun því 45 af erlendu hermönnunum hafa nú greinst smitaðir af kórónuveirunni.
Af þeim 3.000 hermönnum sem Frank Bakke-Jensen varnarmálaráðherra bauð til æfingarinnar komu 1.600 til Bardufoss í síðustu viku, en það var í morgun sem smitin voru staðfest hjá 41 bandarískum hermanni og fjórum breskum. Auk þess hafa tólf norskir hermenn smitast svo smitin eru hátt í 60 sem komið er.
Gert er ráð fyrir að Joint Viking standi út mars svo gestirnir munu hafa nokkra viðdvöl í Noregi en eftir því sem norskir fjölmiðlar greindu frá í síðustu viku skyldu allir erlendu hermennirnir skila neikvæðu kórónuprófi 72 tímum fyrir komu til landsins svo gera má því skóna, að að minnsta kosti einhver smitanna séu til komin í Noregi.
Þeir sem greinst hafa með veiruna sitja nú í einangrun í Setermoen-herbúðunum að sögn Erik Skomedal, talsmanns hersins, en í vikunni sem nú er að hefjast koma gestahermennirnir sem upp á vantar til landsins og segist Skomedal þá reikna með að fleiri tilfelli skjóti upp kollinum.
Sýna þessar tölur ekki að sóttvörnum hefur ekki verið sinnt til hins ýtrasta við komu hermannanna, vill norska ríkisútvarpið NRK vita.
„Eftirlitinu sem þeir hafa sætt fyrir brottför [í sínum heimalöndum] hefur verið ábótavant svo margir þeirra hafa komið smitaðir hingað. Þetta sýnir mikilvægi þess að allir gangist undir próf við komu og að allir fari í sóttkví strax,“ svarar Skomedal. „Smitstaðan í öðrum löndum er öðruvísi en í Noregi, sérstaklega í þessu umdæmi, svo þetta kemur lítið á óvart.“
Varnarmálaráðherra kveðst ekki hafa sérstakar áhyggjur þótt tilfellin hafi komið upp meðal erlendu gestanna og segir framkvæmd æfingarinnar ákaflega mikilvæga.
„Mikilvægasta verkefni hersins í heimsfaraldri er að vera virkur og framkvæma sín verkefni, nokkuð sem við höfum lagt mikla vinnu í síðan faraldurinn hófst í mars,“ segir Bakke-Jensen við NRK. „Herinn hefur staðið mjög vel að sóttvörnum og neytt allrar þekkingar sem honum er tiltæk í þeim efnum.“