Samfélagsmiðillinn Parler hefur höfðað mál gegn Amazon eftir að netrisinn ákvað að hætta að hýsa hinn íhaldssama miðil vegna aðgerðaleysis þegar hvatt var til ofbeldis á miðlinum.
Parler, sem er með bækistöðvar í ríkinu Nevada, óskaði eftir því að alríkisdómstóll kæmi í veg fyrir að Amazon gæti lokað á aðgang miðilsins að netþjónum sínum.
Kæran kemur á sama tíma og netrisar hafa lokað á aðgang stuðningsmanna Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, eftir að æstur múgur sem studdi Trump ruddist inn í bandaríska þinghúsið og einnig vegna meintra áætlana um ný, ofbeldisfull mótmæli, aðallega á deginum sem Joe Biden tekur við embætti forseta.
Í kærunni kemur fram að það að loka fyrir aðgang að netþjónunum sé „sambærilegt og að taka öndunarvél sjúklings sem liggur á sjúkrahúsi úr sambandi“. „Það mun eyðileggja viðskipti Parler á sama tíma og þau eru við það að rjúka upp úr öllu valdi.“
Parler segir einnig í kærunni að Amazon hafi brotið lög og sé að reyna að hjálpa andstæðingi sínum Twitter, sem hefur þegar læst aðgangi Trump. Öðrum reikningum hefur sömuleiðis verið lokað hjá fólki sem hefur hvatt til ofbeldisfullra aðgerða.