Samfélagsmiðillinn Parler, sem notaður er af fjölda stuðningsmanna Bandaríkjaforseta, missti í dag aðgang að netþjónum sínum. Þetta gerðist degi eftir að Amazon sagði að fyrirtækið myndi ekki lengur hýsa samfélagsmiðilinn vegna aðgerðaleysis Parler þegar kom að því að fjarlægja ofbeldisfullt efni af miðlinum.
Vefsíðan Down For Everyone Or Just Me sýnir að Parler hafi ekki verið tengdur við netkerfi síðan í morgun. Það bendir til þess að eigendur Parler hafi ekki getað fundið nýjan hýsingaraðila.
Parler gefur sig út fyrir að vera vettvangur tjáningarfrelsis þar sem „raunveruleg skoðanaskipti“ geta farið fram. Þar hafa stuðningsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og þeir sem aðhyllast samsæriskenninguna QAnon haft athvarf eftir að hafa verið bannaðir af öðrum samfélagsmiðlum og fór undirbúningur fyrir innrásina í þinghús Bandaríkjanna í síðustu viku að hluta fram á miðlinum.