Þjóðverjar sömdu um bóluefnakaup

Beðið eftir bólusetningu með bóluefni Oxford/AstraZeneca í Epsom, Englandi.
Beðið eftir bólusetningu með bóluefni Oxford/AstraZeneca í Epsom, Englandi. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ekki viljað tjá sig um samninga sem Þjóðverjar hafa gert um kaup á bóluefni fyrir utan samstarf ESB-ríkjanna annað en að áfram verði um samstarf að ræða. Stórfellt bólusetningarátak hófst á Englandi í dag.

Yfirvöld í Bretlandi og Evrópusambandið tilkynntu um áfanga í bólusetningum á föstudag á sama tíma og reynt var að draga úr gagnrýnisröddum vegna þess hve hægt gengur að bólusetja á sama tíma og nýjum smitum fjölgar hratt. Þetta kemur fram í frétt AFP-fréttastofunnar á föstudag. 

Þann sama dag greindi EU Observer frá því að framkvæmdastjórn ESB hefði neitað að tjá sig um hvort Þjóðverjar hefðu gengið á bak samkomulags ríkjanna og tryggt sér aukaskammta af bóluefni fyrir Þjóðverja. 

Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, sagði fyrir viku að Þýskaland hefði tryggt samkomulag við BioNTech í september um 30 milljónir skammta fyrir íbúa landsins en þetta samkomulag er í hættu vegna sameiginlegra bóluefnakaupa ríkja Evrópu. 

EUObserver hefur á föstudag eftir þýska heilbrigðisráðuneytinu að því til viðbótar hafi landið tryggt sér 20 milljónir skammta frá Curevac og eigi í viðræðum við Moderna. 

Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, viðurkennir að ýmsir hnökrar hafi verið á bólusetningum í ríkjum ESB í upphafi og að erfiðir mánuðir séu framundan. Þrátt fyrir það hafi verið rétt ákvörðun af framkvæmdastjórninni að panta bóluefni á síðasta ári sem ekki hafði fengið samþykki.

Búið væri að tryggja næga skammta af bóluefnum Pfizer-BioNTech og Moderna til að bólusetja 380 milljónir íbúa ESB eða rúmlega 80% íbúanna. Ef önnur bóluefni fá markaðsleyfi þá gæti svo farið að sambandið hefði yfir 2,3 milljónum skammta að ráða sem er miklu meira en nóg fyrir alla íbúa ESB. 

Í Bretlandi, því ríki Evrópu sem hefur orðið verst úti í Covid-19-faraldrinum á eftir Rússlandi, er byrjað að bólusetja með þremur bóluefnum eftir að Moderna fékk þar leyfi fyrir helgi.  

Opna sjö bólusetningamiðstöðvar

Sjö bólusetningamiðstöðvar voru opnaðar í dag víðsvegar á Englandi en stefnt er að því að bólusetja milljónir á næstunni.

Um er að ræða fótboltavelli og reiðvelli, t.d. í Bristol, London, Newcastle og Manchester. Í fyrstu verða þúsundir bólusettar á viku en stjórnvöld vonast til þess að vera með bóluefni til reiðu fyrir 12 milljónir Englendinga um miðjan febrúar en alls eru íbúarnir 56 milljónir talsins. 

Þegar hafa 1,2 milljónir Englendinga verið bólusettar en byrjað var á því að bólusetja viðkvæmustu hópana. 

Líkt og greint var frá á mbl.is á föstudag á Lyfjastofnun Evrópu von á að ákvörðun liggi fyrir varðandi markaðsleyfi fyrir Oxford-AstraZeneca-bóluefnið fyrir lok mánaðar. 

Ákveðin í að halda samstarfinu áfram

Eins og staðan var á föstudag var ESB komið með 75 milljónir skammta af Pfizer-bóluefninu en afgangurinn yrði afhentur á öðrum ársfjórðungi. Heimild var veitt fyrir afhendingu á 160 milljón skömmtum af Moderna á miðvikudaginn í síðustu viku.

Ursula von der Leyen segir að samstarf ríkjanna um kaup á bóluefni sé bindandi og ekki sé hægt að semja sig sértaklega frá samkomulaginu.

Á föstudagskvöldið kom tilkynning um að forseti Frakklands, Emmanuel Macron, kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og von der Leyen hefðu lýst því yfir að þau væru ákveðin í að halda áfram þeirri stefnu sem hefði verið mörkuð um samstarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert