Sjúkraflutningamenn í Kaliforníu fengu þau fyrirmæli í síðustu viku að í ljósi aðstæðna þyrftu þeir að skilja þá veikustu eftir. Ef mat þeirra var að ekki væru miklar líkur á að sjúklingarnir myndu ná sér ætti frekar að flytja þá sem ættu betri möguleika.
Í fátækari hverfum L.A. er ástandið verst þar sem allt upp í 17 klukkustunda bið hefur verið fyrir sjúklinga, sem koma með sjúkrabílum á sjúkrahús, eftir því að vera skráðir inn á sjúkrahúsið.
Í myndskeiðinu frá AFP-fréttaveitunni sem fylgir fréttinni er kíkt á aðstæður á Martin Luther King Community-sjúkrahúsinu sem sinnir sunnanverðri Los Angeles. Hverfum á borð við Compton og Inglewood og gjarnan er talað um South-Central. Íbúar eru að mestu leyti svartir eða af suðuramerískum uppruna og fátækt er mikil.
„Hér búa þeir sem halda samfélagi okkar gangandi. Þetta er fólkið sem fyllir á hillurnar í stórverslunum, ekur strætóunum og hreinsar upp eftir okkur hin,“ segir Elaine Batchlor, forstjóri spítalans, og talar um ástandið sem grafalvarlegt en faraldur kórónuveirunnar er í hámarki á svæðinu.
Um helgina voru um 22.000 manns á spítala í Kaliforníu vegna veirunnar og í vikunni sem leið létust 481 manns á degi hverjum í ríkinu. Í samantekt L.A. Times um stöðuna er nóvembermánuður tekinn til samanburðar þegar andlát vegna Covid-19 voru um 40 talsins á degi hverjum.
Næstu vikur verða einnig erfiðar þar sem nýgreiningar í Kaliforníu voru um 45.000 á sunnudag sem sérfræðingar segja koma í kjölfarið á ferðalögum og hátíðarhöldum yfir jól og áramót. Um helgina fór tala látinna yfir 30.000 í Kaliforníu en þrátt fyrir yfirþyrmandi aðstæður er greinilega enn baráttuhugur hjá starfsfólki sjúkrahússins sem rætt er við í myndskeiðinu. Nýlega fékk það fyrri skammtinn af bóluefni Pfizer sem ætti að gera því lífið léttara í baráttu sinni við veiruna.