Á vormánuðum mun norska Stórþingið greiða atkvæði um hvort stærsta breyting fram til þessa á stefnu norskra stjórnvalda í fíkniefnamálum verði að veruleika, niðurstaða 400 blaðsíðna skýrslu sem starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar setti fram í desember 2019 og mbl.is fjallaði um á sínum tíma.
Frá hegningu til hjálpar (n. Fra straff til hjelp) var yfirskrift skýrslu hópsins sem falið var að setja fram tillögu um breytingar á norskri fíkniefnalöggjöf og svara þeirri spurningu hvort tímabært væri að afnema refsingar, sektir og dóma, fyrir neysluskammta og gera þeim, sem gripnir væru með slíka skammta, heldur að sækja sér ráðgjöf fagfólks um fíkn og fíknivanda á vegum búsetusveitarfélags viðkomandi.
Mánuðum fyrir afgreiðslu þingsins hefur þessi hugsanlega breyting á fíkniefnastefnunni, Rusreformen eins og hún kallast á norsku, vakið mikinn úlfaþyt og harðar deilur meðal stjórnmálamanna og fagaðila sem að málinu koma.
Í fljótu bragði virðast þingmenn Framfaraflokksins (FrP) taka hve harðasta afstöðu gegn breytingunni og slóst norska ríkisútvarpið NRK í för með þingmönnum flokksins, þeim Sylvi Listhaug og Åshild Bruun-Gundersen, sem tóku hús á norsku rannsóknarlögreglunni Kripos í Ósló og fengu að sjá með berum augum það magn fíkniefna sem starfshópurinn mælist til að norskir fíkniefnaneytendur geti spókað sig með úti á götu án þess að eiga refsingu yfir höfði sér.
Þingkonurnar setur hljóðar þegar Elisabeth Drange, starfsmaður Kripos, skrýdd hvítum sloppi, tínir aðföngin fram úr fíkniefnageymslum stofnunarinnar og setur á bakka fyrir framan þær auk þess að taka sér vasareikni í hönd og reikna saman götuverðmæti efnanna sem er um 20.000 norskar krónur, jafnvirði um 300.000 íslenskra króna.
Tillögur starfshópsins um refsileysi ná til eftirfarandi magns fíkniefna:
„Þetta er í fyrsta skipti sem við sjáum þetta á þennan hátt,“ segir Bruun-Gundersen. „Ógn og skelfing, þetta er fullkomlega óábyrgt,“ segir samflokkskona hennar, „Mér finnst það algjörlega villt að setja það fram í fullri alvöru að fólk geti gengið um með 300 neysluskammta á sér að verðmæti 20.000 krónur. Ég ábyrgist að Framfaraflokkurinn mun aldrei greiða þessu atkvæði.“
Arild Knutsen, formaður Samtaka um mannlega fíkniefnastefnu (Foreningen for human narkotikapolitikk), hristir höfuðið þegar fréttamenn NRK leyfa honum að lesa ummæli þingmanna Framfaraflokksins í Kripos-heimsókninni.
„Hér er mikill misskilningur á ferðinni. Að leggja magntillögur starfshópsins fram á þennan hátt og halda því fram að þetta sé eitthvað sem okkur finnist bara fínt er langt frá hinu sanna. Tillögurnar stefna að því að neytendur losni við að fara á fund sölumanna á hverjum degi, þetta eru tíu daga birgðir,“ segir Knutsen.
Hann segir að með stefnubreytingunni, verði hún að veruleika, sé engan veginn verið að leyfa fíkniefni. Lögreglan leggi áfram hald á fíkniefni hjá borgurunum og áfram verði jafn ólöglegt og nú að selja fíkniefni. „Það sem hópurinn er að leggja til er að fólki verði ekki refsað með sektum eða fangelsi fyrir að vera með neysluskammta á sér, heldur gert að þiggja ráðgjöf á vegum síns sveitarfélags.“
Knutsen gagnrýnir lögreglu og stjórnmálamenn sem hann segir gjarnan reyna að slá sig til riddara með yfirlýsingum í málum á borð við þetta. „Við, sem erum fylgjandi tillögum fíkniefnastarfshópsins, erum úthrópuð sem frjálslyndir bjálfar (n. idiotliberale). Ég kalla það ekki málefnalega umræðu,“ segir Knutsen.
Hann fær stuðning úr óvæntri átt, frá Jørn Sigurd Maurud ríkissaksóknara sem telur fíkniefnastefnu norskra stjórnvalda ekki hafa skilað miklu, ef frá er talið gríðarlegt álag á dóms- og réttarkerfið. „Ég þarf ekki annað en að ganga fimmtíu metra eftir götunni til að sjá að við eigum okkur ekki bara sögur af velgengni þegar fíkniefnastefna norskra stjórnvalda er annars vegar,“ segir ríkissaksóknari við NRK. „Hér er ástæða til að hugsa hlutina upp á nýtt,“ segir hann enn fremur.
Niðurstaða skýrslunnar, sem starfshópur um breytta fíkniefnastefnu í Noregi afhenti stjórnvöldum 19. desember 2019, er í sem stystu máli að flytja ábyrgðina á viðbrögðum samfélagsins við fíkniefnaneyslu frá dómskerfinu yfir á heilbrigðiskerfið og afnema refsingar fyrir vörslur fíkniefna til eigin nota.
NRKII (Benedicte Bjørnland ríkislögreglustjóri um málið (des. 2019))