Niðurstaða rannsóknarnefndar á vegum írska ríkisins um heimili fyrir mæður og börn á Írlandi verður kynnt síðar í dag. Þar koma fram upplýsingar um hvernig níu þúsund börn, eitt af hverjum sjö, létust á 18 stofnunum á árunum 1922 til 1998.
Ítarlega er fjallað um málið á vef BBC og Guardian í dag en skýrslan verður kynnt síðdegis. Þar er fjallað um hvernig trúarlegar stofnanir á Írlandi beittu ógiftar mæður og börn þeirra ofbeldi og þau smánuð. Skýrslan er þrjú þúsund blaðsíður að lengd og fimm ára rannsóknarvinna liggur að baki henni. Nefndin var sett á laggirnar í kjölfar þess að fjöldagrafir með líkamsleifum 796 barna fundust í Tuam í Galway-sýslu árið 2014.
Mícheál Martin, forsætisráðherra Írlands, mun biðjast formlega afsökunar fyrir hönd ríkisins á morgun en hann hefur lesið skýrsluna og segir að lesturinn hafi tekið á og þarna sé sláandi upplýsingar að finna. Independent komst yfir skýrsluna og birti hluta hennar um helgina og vakti það mikla reiði meðal ráðamanna sem og þolenda ofbeldisins á þessum barna- og mæðraheimilum.
Þar kom meðal annars fram að dánartíðnin var tvöfalt hærri á þessum heimilum en annars staðar á Írlandi á þessum tíma. Það er rakið til vanrækslu, vannæringar og sjúkdóma sem þar geisuðu óáreittir.