Navalní snýr aftur til Rússlands

Alexei Navalní, helsti gagnrýnandi rússneska stjórnvalda, tilkynnti í dag að hann hugist snúa aftur til Rússlands frá Þýskalandi á sunnudag. Navalní hefur verið í Þýskalandi undanfarna mánuði og jafnað sig eftir eitrun sem hann varð fyrir um borð í flugvél á leið frá Síberíu til Moskvu 20. ágúst. 

Navalní, 44 ára, sagði á samfélagsmiðlinum Instagram að hann hafi þegar pantað flugferð til Rússlands og lendi þar 17. janúar, þrátt fyrir að eiga von á því að vera handtekinn. 

„Það var þessi endalausa spurning um hvort ég ætti að snúa aftur eða ekki. Ég ákvað ekki að fara. Ég endaði í Þýskalandi af einni ástæðu: þeir reyndu að drepa mig,“ sagði Navalní í yfirlýsingu sinni. 

Navalní varð skyndilega veikur um borð í flugvél á leið til Moskvu og varð það honum til lífs að vélinni var lent í skyndi í borginni Omsk þar sem honum var komið á bráðamóttöku í snatri. Navalní var haldið sofandi og fluttur til Berlínar, þar sem greiningar leiddu í ljós að eitrað hafði verið fyrir honum með novichok-eitri. Novichok-eitur var búið til af rússneskum vísindamönnum á dögum kalda stríðsins og þar einungis lítið magn af því til þess að verða manni að bana. 

Navalní hefur fullyrt það að eitrunin hafi verið á ábyrgð leyniþjónustu Rússlands og að beiðni Vladimírs Pútín Rússlandsforseta. 

„Ég lifði af. Og nú er Pútín, sem fyrirskipaði morðið á mér, að segja þjónum sínum að gera allt svo ég geti ekki snúið aftur,“ segir Navalní, en hann og stuðningsmenn hans segja að yfirvöld hafi hótað handtöku snúi hann aftur.

Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar.
Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert