Réttarhöld hófust í dag yfir yfir rúmlega 350 manns í stærsta mafíumáli sem höfðað hefur verið á Ítalíu í yfir 30 ár. Reyna saksóknarar að höggva í raðir 'Ndrangheta mafíunnar, en um er að ræða valdamestu mafíu Ítalíu, auk þess sem angar hennar eru sagðir teygja sig víða um heim. Meðal annars er glæpahringurinn talinn stýra stærstum hluta innflutnings á kókaíni til Evrópu.
Komið hefur verið upp sérstökum dómsal í bænum Lamezia Terme í suðurhluta Calabrian-héraðs, sem staðsett er á suðurhluta Ítalíu. Ákært er fyrir fjölbreytt afbrot sem teygja sig aftur til tíunda áratugar síðustu aldar, en um er að ræða annars vegar svokölluð hvítflibbabrot eins og peningaþvott, mútur og misnotkun í opinberu starfi, og hins vegar „blóðug“ brot eins og þau eru nefnd í umfjöllun AFP fréttastofunnar. Er þar átt við ofbeldismál, morð, fíkniefnamál og fleira.
Nicola Gratteri, saksóknari í málinu, sagði við fréttamenn að dagurinn í dag væri mikilvægur og að réttarhöldin myndu sýna að mafían frá Calabria væri í dag ekki lengur mafía sem sérhæfði sig bara í mannránum, heldur með stórtæk glæpasamstæða
Auk félaga í glæpasamtökunum eru á meðal sakborninga stjórnmálamenn, lögfræðingar og viðskiptamenn. Vegna sóttvarna eru þeir ekki í dómsalnum, heldur taka þátt í gegnum fjarfundabúnað og voru andlit þeirra sýnd á fjölda sjónvarpsskjáa í réttarsalnum.
Á Ítalíu eru fjöldasaksóknir sem þessar taldar virkasta meðalið gegn skipulagðri glæpastarfsemi, en sem fyrr segir er 'Ndrangheta mafían í dag talin sú valdamesta. Frægasta fjöldasaksóknin sem þessi var á árunum 1986-7 þegar stórt skarð var höggið í raðir Cosa Nostra mafíunnar á Sikiley, en þá voru 338 manns dæmdir sekir. Tveir saksóknarar málsins voru síðar myrtir af samtökunum.
Talið er að núverandi réttarhöld muni standa í meira en eitt ár. Munu 355 ákærðir í málinu koma þar fyrir, auk 900 vitna og fjöldi annarra sem hafa tengsl við mafíuna.
Fram kemur í samantekt AFP að 'Ndrangheta hafi á undanförnum áratugum teygt arma sína inn í næstum alla hluta þjóðlífsins í Calabria, hvort sem það sé á vettvangi sveitarstjórnarmála, sjúkrahúsa, kirkjugarða eða jafnvel inn í dómsalina. Telja yfirvöld að samtals séu um 150 fjölskyldur hluti af 'Ndrangheta og að félagar séu um 6.000 í heimahéraðinu. Þá bætist við þúsundir til viðbótar þegar horft sé út fyrir landsteinana.
Áætlað er að glæpahringurinn hafi tekjur upp á um 50 milljarða evra árlega, en saksóknari málsins hefur lýst 'Ndrangheta sem neti af fjölskyldum sem hver og ein hefur sitt valdsvið, en heyrir svo undir aðra ofar í goggunarröðinni. Líkti hann þessu við stórt alþjóðlegt fyrirtæki.