Tryggja Afríku 270 milljónir skammta

Sjúklingar með Covid-19 fá hér súrefni á Khayelitsha-sjúkrahúsinu í Suður-Afríku.
Sjúklingar með Covid-19 fá hér súrefni á Khayelitsha-sjúkrahúsinu í Suður-Afríku. AFP

Afríkubandalagið hefur tryggt 270 milljónir skammta af bóluefni við Covid-19 sem dreift verður um álfuna í ár að sögn forseta Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, sem er í forsæti bandalagsins.

Þetta kemur til viðbótar þeim 600 milljónum skammta sem þegar hefur verið heitið að fari til Afríku. Þetta nægir samt sem áður ekki til að bólusetja alla í álfunni.

Menn óttast að fátækari ríki heims verði látin sitja á hakanum á meðan íbúar ríkari landi eru látnir ganga fyrir þegar kemur að bólusetningu að því er segir í frétt BBC. 

Námsmenn þvo sér um hendurnar áður en þeir fara heim …
Námsmenn þvo sér um hendurnar áður en þeir fara heim úr skólanum. Myndin er tekin í Rúanda. AFP

Í flestum löndum Afríku eru smit og dauðsföll færri en víðast annars staðar. Aftur á móti er nýjum smitum að fjölga á ákveðnum stöðum en fyrir jól greindist nýtt afbrigði veirunnar í Suður-Afríku sem óttast er að sé bráðsmitandi líkt og það afbrigði sem greindist fyrst í Bretlandi. 

Ramaphosa sagði í gær að tekist hafi að tryggja 270 milljónir skammta bóluefnis frá þremur framleiðendum: Pfizer, AstraZeneca (í gegnum Serum Institute of India) og Johnson & Johnson. Að minnsta kosti 50 milljónir þessara skammta verða afhentar á öðrum ársfjórðungi. 

Bólusett í Ísrael.
Bólusett í Ísrael. AFP

Í gær var fjallað um það í Morgunblaðinu hvernig staðan væri í bólusetningarmálum í heiminum. Þar skiptir hann þeim 46 löndum, þar sem bólusetning er á annað borð hafin, í fjóra flokka.

„Í fyrsta lagi eru heimsmeistararnir í Ísrael í algerum sérflokki, en þar er þegar búið að bólusetja ríflega fimmtung íbúa landsins. Í 2. flokki eru Sameinuðu arabísku furstadæmin og Barein, í 3. flokki Bretland, Bandaríkin og Danmörk, sem hafa náð að bólusetja yfir 2% íbúa, en svo er afgangurinn með Ísland fremst meðal jafningja, en hér hafa 1,34% íbúa verið bólusett.

Skipulagsvandi og seinagangur Evrópu í bólusetningu er vel þekktur, en forskot Breta og Bandaríkjanna má að miklu leyti rekja til skilvirkara lyfjaeftirlits og snaggaralegri leyfisveitingar en í Evrópusambandinu, sem Ísland lýtur í þessu samhengi,“ segir í grein Andrésar Magnússonar sem lesa má í heild í Morgunblaðinu í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert