Að minnsta kosti 34 eru látnir eftir að jarðskjálfti sem mældist 6,2 stig reið yfir indónesísku eyjuna Sulawesi í nótt. Sjúkrahús og fleiri byggingar skemmdust illa í jarðskjálftanum að sögn yfirvalda. Hundruð slösuðust í skjálftanum.
Mikil skelfing greip um sig meðal íbúa á eyjunni enda aðeins tvö og hálft ár síðan harður jarðskjálfti og flóðbylgja kostaði þúsundir mannslífa á eyjunni.
Að sögn yfirmanns almannavarna á Sulawesi, Ali Rahman, eru flestir þeirra látnu íbúar í borginni Mamuju. Margir þeirra voru grafnir undir húsarústum.
Almannavarnadeild ríkisins hafa einnig tilkynnt um að fólk hafi látist á svæðinu suður af Mamuju. Rústabjörgunarfólk leitar nú tuga sjúklinga og starfsfólks sem er fast undir rústum sjúkrahússins í Mamuju. Að sögn björgunarsveitarfólks hrundi sjúkrahúsið gjörsamlega til grunna.
Eins er átta manna fjölskyldu saknað eftir að hús hennar gjöreyðilagðist í jarðskjálftanum.
Að minnsta kosti eitt hótel hrundi að hluta í jarðskjálftanum sem reið yfir klukkan 2:18 að staðartíma í nótt en klukkan 18:18 að íslenskum tíma í gær.