Vindur olli þyrluslysi í Miklagljúfri

Fólk á gangi um Miklagljúfur.
Fólk á gangi um Miklagljúfur. AP

Ástæðan fyrir því að fimm Bretar fórust í þyrluslysi í Miklagljúfri í Bandaríkjunum árið 2018 er líklega sú að flugmaðurinn missti stjórnina á þyrlunni í vindi. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknarskýrslu yfirvalda.

Flugmaðurinn sagði bandarískum rannsakendum að þyrlan hefði lent í „mikilli vindhviðu“ og byrjað að snúast, að því er BBC greindi frá.

Eldur kviknaði í þyrlunni, sem var af tegundinni Airbus EC130 B4, eftir að hún brotlenti á þessum vinsæla ferðamannastað í Arizona í febrúar 2018. Bræðurnir Stuart og Jason Hill, 30 og 32 ára, frá Worthing í Vestur-Sussex, voru á meðal þeirra sem fórust.

27 ára kærasta Stuarts, Becky Dobson, fórst í einnig í slysinu, ásamt vinum þeirra, þeim Ellie Milward og Jonathan Udall sem voru í brúðkaupsferð.

Í bandarísku skýrslunni kemur fram um orsakir slyssins að sviptivindar, niðurstreymi og órói í lofti hafi líklega orðið til þess að flugmaðurinn missti stjórn á þyrlunni.

Tvö lifðu af en slösuðust illa

Hópurinn var í fríi í Bandaríkjunum til að fagna þrítugsafmæli Stuarts, auk þess sem Udall-hjónin voru nýgift og ákváðu að fara til Las Vegas. Jennifer Dorricott, kærasta Jasons, lifði slysið af en slasaðist illa. Flugmaðurinn Scott Booth lifði einnig af en missti báða bætur. Hann var í þriðju ferðinni sinni þann daginn þegar hann reyndi að lenda skammt frá Colorado-ánni í Miklagljúfri. Engar sannanir fundust um vélarbilanir.

Ekki var hægt að flytja fórnarlömbin á sjúkrahús fyrr en um sex klukkustundum eftir slysið vegna þess hve afskekktur slysstaðurinn er, auk þess sem fjarskipti voru erfið, að sögn rannsakenda.

Það sem varð aðallega til þess að fólkið fórst, samkvæmt skýrslunni, var eldurinn sem kviknaði um borð í þyrlunni eftir að hún brotlenti. Enginn búnaður var um borð til að vernda eldsneytistankinn vegna mögulegrar brotlendingar og engar reglur kröfðust þess heldur. Eftir slysið tilkynnti þyrlufyrirtækið að þessum búnaði yrði komið fyrir í öllum þyrlum þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert