Yfir 22 þúsund smit á sólarhring

AFP

Yfir tvær milljónir Þjóðverja hafa smitast af kórónuveirunni og hefur Angela Merkel, kanslari Þýskalands, þrýst á að sóttvarnareglur verði hertar umtalsvert til að hægja á fjölgun smita. 

Síðasta sólarhringinn greindust 22.368 með staðfest smit í Þýskalandi, fjölmennasta ríki Evrópusambandsins. Samkvæmt heilbrigðisstofnun landsins, Robert Koch Institute (RKI), hafa því alls 2.000.958 smitast af Covid-19 þar í landi. Stofnunin greindi frá 1.113 dauðsföllum í morgun sem þýðir að alls eru 44.994 talsins.

AFP

Á fundi með háttsettum flokkssystkinum sínum sagði Merkel að hún myndi óska eftir viðræðum við leiðtoga sambandsríkjanna um stöðuna og hvað væri hægt að gera til þess að stöðva framgang veirunnar. Það yrði ekki gert nema með því að grípa til frekari aðgerða.

Merkel lýsti einnig áhyggjum af afbrigðinu sem fyrst greindist í Bretlandi en það er talið meira smitandi en fyrri afbrigði. Nauðsynlegt sé að fólk dragi í samskiptum sín á milli. 

Meðal þess sem rætt er um er að taka upp landamæraeftirlit, krafa verði gerð um að ákveðnum stöðum verði notaðar hágæða grímur (FFP2) og að fleiri vinni heiman að.

Börum, líkamsræktarstöðvum, menningar- og afþreyingarmiðstöðvum var lokað snemma í nóvember og í desember bættust við verslanir sem ekki selja nauðsynjavöru og skólar. Eins eru í gildi harðar fjöldatakmarkanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert