Eftir að nýr formaður Kristilegra demókrata í Þýskalandi var kosinn á rafrænum landsfundi í morgun lægi beinast við að ætla að þar væri komið nýtt kanslaraefni flokksins, Armin Laschet.
Málið er þó ekki svo einfalt, heldur kemur enn vel til greina að annar en Laschet fari fram sem kanslaraefni þessa stærsta flokks í Þýskalandi, voldugasta ríki í Evrópu.
Þýskur stjórnmálafræðingur segir í samtali við norðurþýska útvarpið að raunar sé harla ólíklegt að Laschet verði teflt fram sem kanslaraefni og segir hann valið mun frekar standa á milli Markus Söder, forsætisráðherra í Bæjaralandi og leiðtoga CSU, systurflokks CDU, og Jens Spahn, núverandi heilbrigðisráðherra þýsku ríkisstjórnarinnar, sem er næstvinsælasti stjórnmálamaður landsins, á eftir Angelu Merkel fráfarandi kanslara.
Kórónuveiran hefur verið lán í óláni fyrir stjórnmálaferla beggja, Söder og Spahn.
Hinn fyrrnefndi er talinn hafa staðið sig á vaktinni í Bæjaralandi og Spahn þegar á heildina er litið í baráttunni við veiruna. Í aðdraganda formannsvalsins var Spahn raunar talinn líklegra kanslaraefni ef Laschet yrði formaður, þannig að hann mun hafa fagnað niðurstöðum dagsins. Söder er aftur á móti reynslumeiri og á miklu fylgi að fagna í Bæjaralandi.
Það er mikið í húfi enda eru kosningar í Þýskalandi í haust og systurflokkarnir CSU-CDU mælast með 35,8% fylgi, sem er nærri tvöfalt fylgi á við Græningja, sem mælast annar stærsti flokkurinn með 19%. Kanslaraefni Kristilegra demókrata er því mjög líklegur til að verða næsti kanslari Þýskalands þegar 16 ára valdatíð Merkel lýkur.
Süddeutsche Zeitung lýsir því í umfjöllun sinni um sigur Laschet í dag að hann hafi náð þessum áfanga með því að vera „der lachende Dritte“, sem mætti þýða sem „hinn hlæjandi þriðji“.
Frá því 2018 hefur baráttan um formannssæti flokksins staðið á milli Annegret Kramp-Karrenbauer, sem vann með naumindum 2018 og er núverandi formaður flokksins, og Friedrich Merz, fyrrverandi þingflokksformanns flokksins. Kramp-Karrenbauer hefur ekki tekist að vinna flokksmenn á sitt band frá því að hún vann þessar kosningar og nú var kosið aftur eftir að hún sagði af sér.
Við þessi skilyrði er því lýst hvernig Laschet laumaði sér inn á milli þessara tveggja og bauð upp á þriðja valkostinn, með þessum líka ágæta árangri. Hugmyndir Laschet eru töluvert nær hugmyndum Merkel en hugmyndir Merz, sem er íhaldssamari og lengra til hægri í efnahagsmálum.