Hópur nepalskra fjallagarpa náði á tind K2 fyrr í dag og urðu þeir þar með fyrstir til þess að vinna það afrek að vetri til.
John Snorri Sigurjónsson er einn þeirra sem eru að reyna að komast á topp K2 en hann var í gær í búðum 3 ásamt félögum sínum.
Einn þeirra heitir Mingma Gyabu Sherpa (einnig þekktur sem Mingma David) og á Wikipedia kemur fram að hann sé fæddur árið 1989. Mingma Gyabu er sá yngsti í heimi til að klífa alla 14 tinda heims sem eru yfir átta þúsund metrar á hæð. Hann er einnig í heimsmetabók Guinness fyrir að vera sá sem hefur klifið Everest og K2 með stystu millibili; hann stóð á tindi tveggja hæstu fjalla heims á 61 degi. Af tindunum 14 kleif Mingma átta með félaga sínum Nirmal Purja á árinu 2019 en Nirmal Purja er einnig í hópnum með Mingma.
Í frétt AFP kemur fram að hópurinn hafi sungið þjóðsöng landsins þegar hann komst á toppinn. Tugir fjallgöngumanna hafa undanfarnar vikur keppst við að komast á toppinn á þessu næsthæsta fjalli heims en þar með hefur tekist að toppa öll 14 fjöll heims, sem eru yfir átta þúsund metrar að hæð, að vetrarlagi.
Frá því fyrst var reynt að klífa á tind K2 að vetrarlagi, veturinn 1987-1988, hefur það verið reynt í nokkur skipti, en fjallið, sem er 8.611 metrar að hæð, þykir nánast ókleift að vetri til.
Hingað til hafði enginn komist hærra en 7.650 metra þangað til í dag þegar góðar veðuraðstæður sköpuðust á fjallinu. Aldrei áður hafa jafn margir reynt við K2 á sama tíma að vetri til en í dag eru þar um 60 fjallgöngumenn. Það eru fleiri en samanlagður hópurinn sem það hefur reynt hingað til.
Nepalarnir sem komust á tind K2 eru allir þekktir fjallgöngumenn en þetta er í fyrsta skipti sem þeir taka höndum saman og mynda hóp. Þetta er í fyrsta skipti sem nepalskur fjallgöngumaður stendur fyrstur allra á fjallstindi yfir átta þúsund metrum að vetri til að því er segir á vef AFP-fréttastofunnar.
K2 er einnig þekkt sem grimma fjallið enda getur vindhraðinn náð að minnsta kosti 56 metrum á sekúndu og frostið farið niður fyrir 60 gráður.
Nimsdai Purja, einn þeirra sem náðu á toppinn, segir að þetta sé afar sérstök stund. Enda hafi allur hópurinn komið saman og myndað hóp 10 metrum fyrir neðan toppinn og sungið þjóðsönginn.
Að minnsta kosti einn þeirra, það er Mingma Gyalje, ætlaði sér að ná á toppinn án þess að nota súrefni sér til aðstoðar. Ekki hefur fengist staðfest hvort það tókst enda mjög misvísandi upplýsingar af leiðangri þeirra, bæði í fjölmiðlum sem og samfélagsmiðlum. Hann reyndi að komast á K2 í fyrra að vetri til en varð frá að hverfa.
Rangt var farið með fjölda þeirra sem komust á tind K2 í dag en afar misvísandi upplýsingar bárust í fyrstu af afrekinu. Samkvæmt National Geographic komust tíu á tindinn en nánar má lesa um það hér.