Fangar í Ísrael bólusettir

Bólusetning í Ísrael.
Bólusetning í Ísrael. AFP

Fangelsismálayfirvöld í Ísrael hafa tilkynnt að frá og með deginum í dag verði fangar, meðal annars palestínskir fangar, bólusettir við Covid-19. 

Ísraelar hafa bólusett yfir tvær milljónir íbúar, hlutfallslega flesta alla þjóða í heiminum. Ríkið hefur sætt gagnrýni fyrir það að palestínskir fangar áttu samkvæmt upphaflegri bólusetningaráætlun að vera síðastir í röðinni. 

Ísraelskir, alþjóðlegir og palestínskir mannréttindahópar hafa kallað eftir því að um 4.000 palestínskir fangar í ísraelskum fangelsum verði bólusettir fyrr. Um 250 palestínskir fangar hafa þegar smitast af kórónuveirunni. 

Yuli Edelstein, heilbrigðisráðherra Ísrael, tilkynnti í síðustu viku að bólusetningar innan fangelsa hæfust á næstunni. Um 20 fangar voru bólusettir í dag. Félag palestínskra fanga segir að þar af hafi þrír verið palestínskir. 

Mannréttindavaktin hefur kallað eftir því að Ísrael tryggi bóluefni fyrir þær tæplega þrjár milljónir Palestínumanna sem búsettir eru á Vesturbakkanum og þær tvær milljónir sem búa á Gaza-svæðinu. 

Ísraelsmenn sem búsettir eru á hersetnum Vesturbakkanum hafa verið bólusettir, en ekki palestínskir nágrannar þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert