Hjarðónæmi aldrei upp á borðum Svía

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að það hafi aldrei staðið til að reyna að ná upp hjarðónæmi við kórónuveirunni í landinu. Fyrstu viðbrögð sænskra heilbrigðisyfirvalda við uppgangi faraldursins seinasta vor vöktu athygli, enda virtust yfirvöld að einhverju leyti ætla að leyfa veirunni að breiðast út meðal Svía. Langflestir hafa látist af völdum kórónuveirunnar í Svíþjóð í samanburði við önnur Norðurlönd.

„Við vorum aldrei, aldrei, með þá stefnu að ná hér upp hjarðónæmi,“ sagði Löfven í umræðuþættinum Agenda í sænska ríkisútvarpinu SVT í kvöld.

Hann segist sem forsætisráðherra taka fulla ábyrgð á öllum aðgerðum til þess að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins hvort sem þær gangi vel eða illa.

„Auðvitað geri ég það,“ sagði Löfven. „Ég er forsætisráðherrann.“

Stefan Löfven, í þættinum Agenda í sænska ríkisútvarpinu.
Stefan Löfven, í þættinum Agenda í sænska ríkisútvarpinu. Skjáskot/SVT

Gripið til harðra aðgerða í vor

Löfven sagði einnig að hann teldi Svía hafa gripið til harðra aðgerða strax seinasta vor þegar kórónuveirunnar varð fyrst vart. Hann benti á að sænsk stjórnvöld hafi gefið út á annað hundrað reglugerða og tilskipana sem snúa að viðspyrnu við kórónuveirunni.

„Ef þú ert forsætisráðherra berðu auðvitað fullkomna ábyrgð á aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég get lofað því að það er ábyrgð sem ég finn á hverjum degi og þá sérstaklega í kreppu sem þessari. Ég held að við höfum gefið út 140 tilskipanir og eitthvað í ætt við 160 reglugerðir til þess að takast á við ástandið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert