Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní er kominn aftur til Rússlands eftir að hafa dvalið í Þýskalandi í kjölfar þess að eitrað var fyrir honum. Flugvélinni sem flutti Navalní aftur til Moskvu var snúið frá flugvellinum sem vélin átti upphaflega að lenda á og þar sem stuðningsmenn hans og fjölmiðlar höfðu komið saman.
Búist er við því að Navalní verði handtekinn í kvöld. Fjórir af helstu stuðningsmönnum hans voru handteknir á Vnukovo flugvellinum í Moskvu, þar sem vélin átti upphaflega að lenda, áður en henni var snúið á Sheremetyevo flugvöllinn.
Navalní segir rússnesk stjórnvöld standa á bak við eitrunina, sem varð honum næstum að bana, og hafa rannsóknarblaðamenn auk stjórnvalda ríkja Evrópusambandsins stutt við þær ásakanir Navalnís en yfirvöld í Rússlandi þvertaka fyrir þær.
Að sögn Navalnís hefur hann náð sér nánast að fullu eftir árásina, hann sakni Moskvu og það hafi aldrei verið efi í hans huga um að snúa aftur heim.