Phil Spector er látinn, 81 árs að aldri. Spector var stórtækur lagahöfundur og upptökustjóri á sjöunda áratug síðustu aldar og átti hann þátt í framleiðslu og útgáfu margra af þekktustu slögurum þess tíma. Meðal þeirra laga sem Spector stýrði upptökum á voru Unchained Melody og You've Lost That Loving Feeling með Righteous Brothers og Imagine með John Lennon.
Vörumerki hans var hið svonefnda „Wall of Sound“, þar sem fjöldi hljóðfæra var nýttur til þess að búa til þykkt hljóð. Spector þótti litríkur karakter, og gengu sögur um að hann hefði stundum tekið skammbyssu með í upptökuverið, tónlistarmönnunum til nokkurrar armæðu. Þannig gekk sú saga að hann hefði eitt sinn hótað meðlimum The Ramones og haldið þeim í gíslingu þegar þeir vildu fara snemma úr upptökum.
Spector var dæmdur fyrir morðið á Lönu Clarkson árið 2009 og var hann enn í afplánun þegar hann lést.
Í frétt TMZ segir að Spector hafi látist af völdum kórónuveirunnar, en í tilkynningu fangelsismálayfirvalda í Kaliforníu kemur fram að læknar eigi eftir að skera úr um hver dánarorsökin var.
Samkvæmt TMZ greindist Spector með Covid-19 fyrir um fjórum vikum og að hann hafi verið fluttur á sjúkrahús í Kaliforníu þar sem hann lést.
Spector kom fram á sjónarsviðið árið 1958 sem lagahöfundur og upptökustjóri. Næstu árin samdi hann eða stýrði upptökum á fjölmörgum af vinsælustu lögum þess tíma, og nutu listamenn á borð við Ike og Tina Turner, The Righteous Brothers og The Ronettes góðs af hæfileikum hans.
Spector ákvað að setjast í „helgan stein“ árið 1966, en sneri aftur í tónlistarbransann árið 1969 þegar John Lennon og George Harrison fengu hann til þess að hljóðblanda upptökur Bítlanna frá því í janúar þess árs. Útkoman var Let It Be, síðasta plata Bítlanna, en hún kom út í maí 1970.
Paul McCartney var þó lítt hrifinn af útkomunni, þar sem Spector hafði hljóðblandað lag hans, The Long and Winding Road, án þess að bera undir hann afraksturinn, og bætt við bæði strengjasveit og stúlknakór. Þrátt fyrir óánægju McCartneys vann Let It Be-platan engu að síður Óskarsverðlaunin árið 1971 fyrir bestu tónlist í kvikmynd.
Eftir þetta sá Spector um upptökur fyrir Lennon og Harrison, og stýrði hann upptökum og hljóðblandaði vinsælustu sólóplötu Lennons, Imagine, auk þess sem hann hljóðblandaði bæði All Things Must Pass sem og tónleikaplötuna Concert for Bangladesh fyrir Harrison.
Þegar Spector vann með The Ronettes á sjöunda áratugnum felldi hann hugi við aðalsöngkonu sveitarinnar, Ronnie Spector, og giftust þau árið 1968. Ronnie lýsti þó síðar gegndarlasu ofbeldi sem hún varð fyrir að hálfu Phils og í ævisögu sinni frá árinu 1990 segir Ronnie frá því hvernig hún flúði Phil með hjálp móður sinnar árið 1972.
Árið 2003 fannst leikkonan og fyrirsætan, Lana Clarkson, látin á heimili Spectors. Hún hafði verið skotin til bana og bar Spector það fyrir sig að hún hafi stytt sér aldur. Svo fór að Spector var dæmdur fyrir morðið á Clarkson og hlaut 19 ára dóm, sem hann afplánaði ennþá þegar hann lést.