Tveir kvenkyns dómarar við Hæstarétt Afganistans hafa verið skotnir til bana.
Konurnar voru myrtar af óþekktum mönnum þegar þær voru á leið sinni til vinnu fyrr í dag. Undanfarið hefur verið talsvert um morð á blaðamönnum, mannréttindafrömuðum og stjórnmálamönnum í Afganistan.
Fram kemur á BBC að konurnar hafi verið skotnar í umsátri snemma á sunnudagsmorgun. Bílstjóri annarrar þeirra er talsvert slasaður.
Atvikið átti sér stað í Qala-e-Fathullah-hverfinu í höfuðborginni Kabúl. Enginn hefur lýst ábyrgð á árásinni. Þó eru talíbanar grunaðir um aðrar nýlegar árásir, án þess þó að aðild þeirra hafi verið staðfest.