Kínversk heilbrigðisyfirvöld segjast hafa rakið 102 kórónuveirusmit til „ofurdreifara“ veirunnar, 45 ára gamals karlmanns sem ferðaðist um norðausturhluta landsins og flutti fyrirlestra um heilsu.
Guardian greinir frá þessu í lifandi fréttastreymi.
73 ný kórónuveirusmit voru skráð í héraðinu Jilin, sem deilir landamærum með Norður-Kóreu, þar af 63 einkennalaus tilfelli. Öll nema eitt einkennalausu tilfellanna má rekja til mannsins sem ferðaðist um í lestum í Harbon, höfuðborg Heilongjiang-héraðs, og borgunum Changchun, Tonghua og Gongzhuling, sem allar eru í Jilin.
Kínverskir miðlar greindu frá því að maðurinn hefði haldið fjóra fyrirlestra í tveimur heilsuklúbbum í Gongzhuling og Tonghua frá 8. til 11. janúar.
79 þeirra 102 smita sem rekja má til mannsins komu upp á meðal fólks sem mætti á fyrirlestra hans. Hin 23 smitin komu svo upp hjá aðilum sem tengdust þeim sem á fyrirlestrana mættu.
Kína tekst nú á við mikinn uppgang faraldursins og hefur ástandið ekki verið svo slæmt síðastliðna tíu mánuði. Fleiri en 100 tilfelli hafa verið tilkynnt í Kína sex daga í röð. Faraldurinn er alls ekki í jafn miklum hæðum og í byrjun síðasta árs en kínversk yfirvöld hafa áhyggjur af þróun mála.