Karlmaður, sem er sagður of hræddur við að fljúga vegna kórónuveirunnar, bjó á öryggissvæði á alþjóðaflugvellinum í Chicago í þrjá mánuði án þess að nokkur tæki eftir því.
Bandarískir saksóknarar greindu frá þessu.
Aditya Singh, 36 ára, var handtekinn á sunnudaginn eftir að starfsfólk flugfélags bað hann að sýna skilríki. Hann benti á starfsmannaskírteini sem hann var með en talið er að það hafi verið í eigu framkvæmdastjóra á flugvellinum sem greindi frá því að hann hefði týnt því í október.
Að sögn lögreglunnar kom Singh á O'Hare-flugvölinn með flugi frá Los Angeles 19. október. Hann er sagður hafa fundið starfsmannaskírteinið á flugvellinum og var „of hræddur við að fara aftur heim vegna Covid“, sagði Kathleen Hagerty, aðstoðarríkissaksóknari við Chicago Tribune.
Honum tókst að verða sér úti um mat á flugvellinum með því að fá ölmusu frá öðrum farþegum, sagði hún. Dómarinn í málinu var afar undrandi á því að manninum skuli hafa tekist að búa á flugvellinum í þrjá mánuði án þess að nokkur tæki eftir því.
Singh býr í úthverfi Los Angeles og er með hreina ferilskrá. Ekki er ljóst hvers vegna hann var staddur í Chicago. Hann hefur verið ákærður fyrir athæfi sitt, en er þó ekki talinn hættulegur á nokkurn hátt.