Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sagði í dag að heimurinn væri á barmi „skelfilegs siðferðisbrests“ og hvatti samtímis lönd heimsins og lyfjaframleiðendur til þess að dreifa bóluefnum á jafnari hátt um heiminn.
Framkvæmdastjórinn, Tedros Adhanom Ghebreyesus, sagði að horfur á sanngjarnri dreifingu væru í „mikilli hættu“.
Þá benti hann á að 44 tvíhliða samningar hafi verið undirritaðir í fyrra og að minnsta kosti 12 slíkir samningar hafi þegar verið undirritaðir á þessu ári. Það gæti hægt á afhendingu til ríkja innan Covax-samstarfsins, sem tryggja á jafna útdeilingu bóluefnis.
„Þetta gæti skapað þær aðstæður sem Covax var ætlað að koma í veg fyrir, þ.e.a.s. hamstur, kaótískan markað, ósamræmd viðbrögð og áframhaldandi félagslega og efnahagslega misskiptingu,“ sagði Ghebreyesus.
Með því að hvert ríki setji sjálft sig í fyrsta sæti er fátækustu og viðkvæmustu ríkjunum stefnt í hættu, að sögn Ghebreyesus. Sú aðferð lengir aðeins heimsfaraldurinn.
Kapphlaupið um bóluefnin á alþjóðavísu hefur orðið harðara að undanförnu vegna uppgangs faraldursins víða um heim og vegna nýrra og bráðsmitandi afbrigða kórónuveirunnar.
Fréttin birtist í lifandi fréttastreymi Guardian.