Alexei Navalní, leiðtoga rússnesku stjórnarandstöðunnar, er haldið ólöglega af lögreglu og hefur honum verið neitað um lögfræðiaðstoð, samkvæmt stofnun Navalnís sem berst gegn spillingu. Hann var handtekinn á flugvellinum í Moskvu í gær við komuna frá Þýskalandi.
„Navalní er rússneskur ríkisborgari. Hann var handtekinn ólöglega. Lögfræðingar hans hafa ekki fengið leyfi til að hitta hann,“ segir í færslu stofnunar Navalnís gegn spillingu á Twitter.
Navalní hafði dvalið í Þýskalandi en þar jafnaði hann sig eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitri. Rússnesk stjórnvöld hafa verið sökuð um að eitra fyrir Navalní en þau hafa þvertekið fyrir það.
Bandaríkin og þó nokkrar ríkisstjórnir í Evrópu hafa krafist þess að Navalní verði sleppt úr haldi.