Kínverskir björgunarmenn hafa borað fleiri holur til að reyna að ná til að minnsta kosti tólf námuverkamanna sem hafa verið fastir neðanjarðar í níu daga við sífellt verri aðstæður.
Matarbirgðir eru af skornum skammti hjá verkamönnunum, auk þess sem vatnsyfirborð hefur hækkað.
Alls hafa 22 verkamenn í leit að gulli verið fastir á 540 metra dýpi neðanjarðar í námunni Hushan skammt frá Yantai í héraðinu Shandong í austurhluta Kína eftir að sprenging lokaði útgönguleiðinni.
Eftir að nokkrir dagar liðu án nokkurs lífsmarks sendu verkamenn upp bréf sem þeir festu við vír sem hafði verið látinn síga niður í námuna á sunnudag.
Þegar hafa þrjár holur verið grafnar til að koma mat, lyfjum, pappír og skriffærum niður til þeirra.