Riley June Williams, ein þeirra sem réðust inn í þinghúsið í Washington, hefur verið handtekin. Talið er að Riley hafi stolið tölvu eða hörðum diski Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar þingsins, með það að markmiði að selja þýfið til Rússlands. BBC greinir frá.
Hún hefur nú verið kærð fyrir að hafa ólöglega ráðist inn í bygginguna með ofbeldisfullum hætti. Skömmu eftir að hún hafði komist inn í bygginguna hélt hún inn á skrifstofu Pelosi í leit að gögnum. Að því er haft hefur verið eftir fyrrum kærasta Riley var ætlun hennar að selja upplýsingarnar til Rússlands.
Fimm létust í árásinni á þinghúsið og fjöldi særðist. Leitað hefur verið að þeim sem stóðu að baki árásinni en þeir verða látnir svara til saka. Riley var ein þeirra sem var á lista alríkislögreglunnar FBI. Hún gaf sig fram í Pennsylvaníu í gær.