Trump „ögraði“ múgnum

McConnell, repúblikani og leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni.
McConnell, repúblikani og leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni. AFP

Stuðningsmönnum Donald Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, sem réðust á þinghús Bandaríkjanna var „ögrað“ af forsetanum og þeir „mataðir á lygum,“ að sögn McConnell, leiðtoga meirihlutans í öldungadeildinni, nú í dag.

„Þeim var ögrað af forsetanum og öðrum valdamiklum einstaklingum.“

„Þau reyndu að nota ótta og ofbeldi til að stöðva“ staðfestingu þingsins á kosningasigri demókratans Joe Biden í nóvember síðastliðnum, sagði McConnell.

„En við héldum áfram. Við stóðum saman og sögðum að reiður múgur myndi ekki fá neitunarvald yfir lögum og reglu í okkar þjóð, ekki einu sinni í eitt kvöld,“ sagði hann. 

Réðust inn í þinghúsið

Þúsundir stuðningsmanna Trump réðust inn í þinghúsið 6. janúar síðastliðinn í kjölfar ræðu frá forsetanum fyrir utan Hvíta húsið þar sem hann endurtók falskar fullyrðingar sínar um að hafa unnið kosningarnar.

Að minnsta kosti fimm manns létust í óeirðunum.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákærði Trump síðastliðinn 13. janúar fyrir að „hvetja til uppreisnar.“ Hann stendur nú frammi fyrir hugsanlegum réttarhöldum í öldungadeildinni eftir að hann lætur af embætti á morgun.

Atkvæði 17 repúblikana þarf til að sakfella Trump í öldungaþinginu. McConnell hefur enn ekki útilokað að hann kjósi með sakfellingu.

Chuck Schumer.
Chuck Schumer. AFP

Búist er við því að demókratinn Chuck Schumer taki við sem leiðtogi meirihluta öldungaþingsins á morgun. McConnell mun þó áfram vera áhrifamikil rödd í repúblikanaflokknum.

Schumer gagnrýndi einnig Trump fyrir að hvetja múginn:

„Óeirðaseggir, uppreisnarmenn, hvítir öfgamenn (e. white supremacists) og innlendir hryðjuverkamenn reyndu að koma í veg fyrir framsal valds,“ sagði hann. „Þeir voru hvattir af engum öðrum en forseta Bandaríkjanna.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert