Önnur af elstu tvíburasystrum Bretlands er látin af völdum Covid-19 eftir að hún og systir hennar smituðust í byrjun janúar.
Doris Hobday, 96 ára, lést 5. janúar nokkrum dögum eftir að hún greindist með Sars-CoV-2 veiruna. Tveimur dögum síðar barst bréf til hennar þar sem henni var boðinn fyrri skammtur af bóluefni við kórónuveirunni.
Systir hennar, Lix Cox, var á sjúkrahúsi í tvær vikur. Þar fékk hún súrefni, sýklalyf og stera. Hún lifði veiruna af að sögn fjölskyldunnar í samtali við Guardian.
Að sögn fjölskyldunnar voru þær báðar heilsuhraustar áður en þær veiktust af Covid-19. Þær ætluðu báðar að ná 100 ára afmæli að sögn fjölskyldunnar. Það er svo grimmilegt að Covid hafi komið í veg fyrir að Doris tækist það segir fjölskyldan ennfremur.