Veitti Steve Bannon sakaruppgjöf

Steve Bannon.
Steve Bannon. AFP

Donald Trump, sem lætur af embætti forseta Bandaríkjanna í dag, hefur veitt fyrrverandi aðstoðarmanni sínum, Steve Bannon, sakaruppgjöf. Hið sama gildir um fjölda annarra.

Hið sama á við um Elliott Broidy, sem safnaði einna mest fé fyrir kosningabaráttu Trumps árið 2016.

Trump veitti alls 73 sakaruppgjöf og mildaði refsingu 70 til viðbótar segir í tilkynningu frá embætti forseta Bandaríkjanna. 

Bannon var handtekinn í ágúst grunaður um fjársvik í tengslum við söfnun fyrir múr sem reisa átti við landamæri Mexíkó. 

Eins veitti hann rapparanum Lil Wayne sakaruppgjöf og mildaði dóm yfir rapparanum Kodak Black og fyrrverandi borgarstjóra Detroit, Kwame Kilpatrick.

Saksóknarar sögðu að Bannon og þrír til viðbótar hefðu svikið fé af hundruðum þúsunda einstaklinga í verk­efnið „Við reis­um múr­inn“. Alls söfnuðust 25 millj­ón­ir bandaríkjadala í sjóðinn. 

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu kemur fram að Bannon hafi verið mikilvægður leiðtogi í hreyfingu íhaldsmanna og sé þekktur fyrir pólitíska skarpskyggni. 

Lil Wayne og Kodak Black voru báðir sóttir til saka fyrir vopnaburð og Kwame Kilpatrick afplánar nú 28 ára fangelsi fyrir spillingu og fjársvik.

Donald Trump mun yfirgefa Washington í dag, áður en innsetningarathöfn Joe Bidens hefst eftir hádegi. Hann mun fljúga til Flórída þar sem hann er með lögheimili. 

Ítarlega er fjallað um náðanir Trumps á vef New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert