Á þriðja þúsund mótmælenda handteknir

Viðbrögð lögreglu hafa verið harkaleg, rétt eins og lögregluyfirvöld lofuðu …
Viðbrögð lögreglu hafa verið harkaleg, rétt eins og lögregluyfirvöld lofuðu sjálf fyrir mótmælin. AFP

Fjöldi mótmælenda hefur verið tekinn höndum í Rússlandi vegna mótmæla sem spruttu upp í dag víða um landið. Mótmælin eru til stuðnings Alexei Navalní, helsta andstæðingi Pútíns Rússlandsforseta, sem var fangelsaður við komuna til landsins í síðustu viku.

Það var í fyrsta sinn sem hann sneri aftur til Rússlands eftir að þarlend stjórnvöld eitruðu fyrir honum með taugagasi.

Rússneska innanríkisráðuneytið segir að fjögur þúsund mótmælendur hafi komið saman í Moskvu en heimildarmenn BBC segja að tugþúsundir hafi verið saman komnar.

OVD, hagsmunasamtök mótmælenda, fullyrða að fleiri en 2.130 manns hafi verið handteknir, þar af að minnsta kosti 790 í Moskvu, höfuðborg Rússlands.

Samkvæmt heimildamönnum BBC hafa tugþúsundir komið saman víða um Rússland.
Samkvæmt heimildamönnum BBC hafa tugþúsundir komið saman víða um Rússland. AFP

Lögregluþjónar gráir fyrir járnum

Navalní hvatti til þess að Rússar mótmæltu handtöku hans en hann er nú í haldi fyrir meint brot á reynslulausn. Hann segir það þöggunartilburði af hálfu stjórnvalda.

Fyrir mótmælin gáfu rússnesk yfirvöld út að tekið yrði hart á mótmælendum sem mótmæltu í leyfisleysi og að mótmælin yrðu kveðin í kútinn um leið og þau byrjuðu.

Lögregluþjónar, gráir fyrir járnum, reyna nú að stöðva mótmælendur með kylfum og skjöldum.

Hrifsuð á brott í viðtali

Nokkrir nánustu bandamanna Navalnís hafa verið handteknir, þar á meðal talskona hans Kira Yarmysh. Hér að ofan sést hvernig lögreglumenn hrifsa Lyubov Sobol, eina helstu stuðningskonu Navalnís, á brott í miðju viðtali við fréttamenn.

Þá sagði eiginkona Navalnís, Yulia Navalní, í færslu á Instagram að hún væri í haldi lögreglu. Hún bað fylgjendur sína velvirðingar á döprum myndgæðum, birtan í lögreglubílnum væri ekki sérstaklega góð.

View this post on Instagram

A post shared by @yulia_navalnaya

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert